Gullhringur foringjans

Gullhringur Skúla Thoroddsen alþingismanns, sýslumanns og ritstjóra. Myndin er fengin úr bók Þorsteins Thorarensen Eldur í æðum (1967). Áletrunin öðru megin er ‘Aldrei” og hinum megin ‘að víkja’ eins og sést hér á myndinni.

Fyrr á tíð var ekki óalgengt að stuðningsmenn stjórnmálaforingja sýndu hug sinn til þeirra í verki með því að gefa þeim táknrænar gjafir. Þetta er lítt rannsakað svið í Íslandssögu síðari alda en mjög áhugavert. Frægt dæmi um þetta er innsiglið sem samherjar Jóns Sigurðssonar forseta gáfu honum við för hans frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur til að sitja þjóðfundinn sumarið 1851. Á það var grafið „Eigi víkja.“ Þetta var brýning til Jóns um að láta ekki deigan síga í viðureigninni við dönsk stjórnvöld og fulltrúa þeirra. Það er svo annar handleggur að áletrunin á innsiglinu leiddi seinna af sér margra áratug misskilning um „kjörorð“ Jóns forseta. Er það mál rakið í annarri grein hér á vefnum.

Eftir að Jón Sigurðsson lést 1879 fóru menn að velta fyrir sér hver gæti talist réttmætur arftaki hans í stjórnfrelsisbaráttunni. Oft var Benedikt Sveinsson (eldri) alþingismaður og ritstjóri (1825-1899), faðir Einars skálds, nefndur í þessu sambandi. Hann lifði tuttugu árum lengur en Jón. Í minningargrein um hann í Þjóðólfi í ágúst 1899 má lesa vangaveltur um þetta. Löngu seinna, árið 1961, rataði Benedikt á frímerki sem forvígismaður hugmyndarinnar um íslenskan háskóla. En nú orðið er nafn hans sjaldan eða aldrei nefnt í hátíðarræðum um sjálfstæðisbaráttuna. Hann hefur fallið í gleymsku eins og svo margir aðrir. Engum dettur lengur í hug að tala um hann sem arftaka Jóns forseta.

En nú erum við komin svolítið út af sporinu. Gjafir til stjórnmálaforingja áttu að vera hér til umræðu. Þá er rétt að víkja að gullhringnum sem einn þekktasti þingmaður og ritstjóri landsins fékk að gjöf á þrítugsafmæli sínu árið 1889. Um er að ræða Skúla Thoroddsen (1859-1916), son Jóns sýslumanns og skálds (sbr. t.d. „Ó fögur er vor fósturjörð” og fyrstu íslensku skáldsögurnar). Skúli var einarður baráttumaður fyrir stjórnfrelsi og einna róttækastur þingmanna í kröfum til danskra stjórnvalda. Þá var hann líka þekktur fyrir að standa keikur á móti veldi danskra kaupmanna og embættismanna hér á landi. Það var einmitt í kjölfar einnar sennunnar við danska valdið á Íslandi og innlenda liðsmenn þess að stuðningsmenn Skúla búsettir í Dýrafirði færðu honum áletraðan gullhring sem átti að brýna hans í baráttunni. Skúli var á þeim tíma auk annars sýslumaður á Ísafirði.

Á gullhringinn er letrað „Aldrei að víkja“. Á þessum tíma hafði sá misskilningur fest sig í sessi að þetta hefði verið kjörorð Jóns Sigurðssonar forseta. Hringurinn var því ekki aðeins brýning til Skúla heldur líka ákveðin yfirlýsing Dýrfirðinga um að hann væri hinn réttmæti arftaki Jóns forseta. Er ekki að efa að gjöfin hefur glatt Skúla og áletrunin hleypt honum kapp í kinn. Hins vegar er því miður ekki vitað hvort og hvernig þá hann notaði hringinn. En svo mikið er víst að hann geymdi hringinn sem sjáaldur auga síns og varðveittist hann því sem ættargripur í fjölskyldunni. Komst sú hefð á eftir lát Skúla vorið 1916 að hringinn skyldi hafa sá afkomandi hans sem bæri sama nafn. Um tíma var hringurinn í vörslu Skúla Thoroddsen læknis en nú er hann í höndum Skúla (Bollasonar) Thoroddsen lögfræðings. Segir Skúli frá þessu í nýútkomnum endurminningum sínum Dorgað í djúpi hugans (Ugla 2025).

Innsiglið sem Jón forseti fékk að gjöf 1851 er varðveitt og til sýnis í Þjóðminjasafninu. Velta má fyrir sér hvort það myndi ekki auka veg Skúla ef sami háttur væri hafður á með gullhring hans.

Fróðlegt væri að vita hver gullsmiðurinn var sem Dýrfirðingarnir fengu til verksins og hvaða önnur verk liggja eftir hann og hver kostnaðurinn hefur verið við verkið. En slíkar upplýsingar eru því miður neins staðar fyrirliggjandi að séð verður.

























































































Next
Next

Bréf frá Láru