Var skessan Gilitrutt karl? Gat nú verið!
Gilitrutt. Ljósmyndin er úr samnefndri kvikmynd.
Þjóðsagan um Gilitrutt birtist fyrst á prenti í þjóðsagnasafninu Íslenzk ævintýri árið 1852 (bls. 123-126). Handritið sem varðveitt er á Landsbókasafni sýnir að séra Magnús Grímsson (d. 1860) skráði söguna og í bók Jóns Árnasonar Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (fyrra bindi, bls. 181-182, 1862), þar sem hún er endurbirt, segir að sagan sé skráð „eptir sögn gamallar konu úr Rangárþingi.“ Magnús varð fyrstur til að safna þjóðsögum hér á landi, byrjaði á því á námsárum sínum í Lærða skólanum og mun á þeim tíma hafa kynnst þjóðsagnasafni hinna nafnkunnu Grimmsbræðra þýsku, Jakobs og Vilhjálms, Kinder- und Hausmärchen. Í því riti er einmitt ævintýrið um Rumpelstiltskin (eða Rumputuski) sem er mjög svipað og sagan af Gilitrutt. Skyldi gamla konan úr Rangárþingi líka hafa lesið þá bók?
Gilitrutt fjallar sem kunnutgt er um lata bóndakonu í íslenskri sveit sem nennir ekki að spinna ullina eins og allar aðrar skikkanlegar húsmæður gera og er nærri lent í höndunum á tröllskessu. En frúin var svo heppin að bóndi hennar heyrði fyrir tilviljun þegar skessan söng uppi á hóli: „Hæ, hæ, og hó, hó. Húsfreyja veit ei, hvað ég heiti; hæ, hæ, og hó, hó. Gilitrutt heiti ég, hó, hó. Gilitrutt heiti ég, hæ, hæ, og hó, hó.“ Og lét frú sína vita. En þó ekki fyrr en hún hafði þjáðst af sálarangist í nokkra mánuði. Hver vill lenda í höndunum á tröllskessu? Eftir þessa lífreynslu gerðist bóndakonan iðjusöm og vann ull sína sjálf. Gladdi það bónda hennar.
En sumum hefur þótt einkennilegt að þegar bóndakonan bað mann sinn að vera hjá sér þegar Gilitrutt kæmi svaraði hann: „Nei, og varstu ein í ráðum, þegar þú fékkst henni ullina, svo það er best að þú gjaldir ein kaupið.“
Var karlinn svona kaldlyndur? Eða bjó eitthvað meira að baki? Grunur leikur á því að ástæðan fyrir því að karlinn vildi ekki vera við hlið húsfreyju þegar von var á Gilitrutt hafi hvorki verið kaldlyndi né heigulsháttur. Hann hafi einfaldlega ekki getað verið á tveimur stöðum samtímis (!) eins og hér má lesa í gamalli tímaritsgrein:Einu sinni voru nokkrir drengir í barnaskóla að lesa söguna um hana Gilitrutt, sem þið víst öll þekkið, skessuna sem vann ullina fyrir bóndakonuna lötu, og ætlaði svo að taka hana, nema hún gæti sagt nafn skessunnar í þriðju gátu. Drengirnir og kennarinn voru svo að tala saman um söguna á eftir.
Kennarinn spurði: „Hvernig stóð á því að bóndinn vildi ekki vera hjá konu sinni á sumardaginn fyrsta, þegar flagðið ætlaði að koma? Var hann huglaus, eða þótti honum ekkert vænt um konuna sína? Nú fóru drengirnir að rannsaka upplag og framkomu mannsins. Huglaus, það var hann ekki, því sagan segir að hann hafi bæði verið mjög ötull og framtakssamur. Honum þótt líka fjarskalega vænt um konu sína og mátti hennar eigi mein vita. Hvernig stóð þá á þessu, það var hvorki hugleysi eða ræktarleysi? En það hlutu að vera einhverjar mjög knýjandi ástæður. Hann hefir ef til vill ekki verið eins hræddur eins og hann lét. Það hefir þó aldrei verið hann sjálfur, sem hafði búið sig út eins og skessa og gjört það til þess að hræða konu sína og gjöra hana iðna? Þegar kennarinn og drengirnir komust að þessari getgátu, urðu drengirnir svo glaðir, og gagnskoðuðu alla söguna og komust að þeirri niðurstöðu að svona hafi þessi þjóðsaga myndast: Um haustið fékk húsfreyja ullarpokann, en nennti aldrei að snerta á honum. Um miðjan vetur kemur þar stórskorin kona; bóndi hvergi nærri. Kerling biður um vinnu, fær pokann og setur kostina. Seinna spyr bóndi um ullina; húsfreyja segir að hann skuli ekki gefa um það [þ.e. ekki hugsa um það]. Hann gjörir sig ánægðan með það.
Á einmánuði fær konan áhyggjur, og segir bónda upp söguna. Hann læst verða mjög hræddur og elur á kvíða konu sinnar. Loksins, siðasta vetrardag, þegar húsfreyja er lögst af hræðslu, þá segist bóndi einu sinni hafa heyrt tröllkonu í hól einum hælast um yfir vef sínum, og hann gefur konu sinni nafn hennar skriflegt. Ólíklegt var að hann hefði geymt lengi að hugga konu sína með þessu, ef alt hefði verið þannig, sem hann sagði. Konan biður hann að vera hjá sér. Nei, það gat hann ekki; vegna hvers? Ætli hann hafi ekki orðið að sækja vaðmálið sem hann hafði látið vefa annars staðar, og síðan að búa sig o. s. frv.
Konan varð iðin upp frá því, og trúði að þetta hefði verið tröllkona, og sagði vinkonum sínum frá og þær aftur sínum og svo gekk sagan um alt land. Eg veit nú ekki hvort þetta er rétt tilgáta, en með því að hugsa rækilega um söguna og taka eftir hinum einstöku atriðum og bera þau saman, fundu þeir, kennarinn og drengirnir, þessa lausn, og þeim þótti sagan af Gilitrutt enn merkilegri eftir það.
(Æskan 1.-2. tbl., október 1903, bls. 2-3).