Bréf frá Láru

Þátttakendur á guðspekiþingi á Akureyri sumarið 1922. Lára Ólasdóttir er önnur f.v. í miðröð. Við hlið hennar situr Aðalbjörg Sigurðardóttir, frægur kvenskörungur á öldinni sem leið. Þórberg Þórðarson þekkja menn auðvitað strax, stendur þarna fjórði f.h. í efstu röð. Standandi efst til hægri er náin vinkona Láru, Soffía Soffaníasdóttir garðyrkjukona, Myndina tók Hallgrímur Einarsson og er hún varðveitt á Minjasafninu á Akureyri.

Á ofanverðri 19. öld hófst tímabil rómananna á Íslandi. Hugsandi fólk lagði frá sér fornrit og guðræknisbækur og tók til við að lesa skáldverk erlendra höfunda einkum hinna nafnfrægu sem helst bar á góma í blöðum og tímaritum. Sumir töldu rómana þroskandi og mannbætandi, aðrir fundu þeim flest til foráttu.

Í sendibréfi frá 1917 segir:

Jeg veit ekki hvað jeg á að segja um það hversu gott menn æfinlega hafa af þessum siðbætandi rómönum, sem eiga að vera, þegar maður [er] svo að segja flakandi í sárum eftir lestur þeirra; þetta kannast jeg svo vel við frá æskuárunum, þá las jeg mikið Tolstoj og aðra fræga höfunda, en oft fleygði jeg bókunum frá mjer, með megnum viðbjóði og gremju, og hjet að lesa ekki meira af þessu tagi, sem ekki ljeti annað eftir en sundurtættar tilfinningar fyrir því sem maður hafði elskað og virt. Nú jeg held því miður að alltof margar sögur hafi alveg öfug áhrif við það sem höfundarnir ætlast til.

Bréfritari bætir svo við:

Annars er náttúrulega leiðinlegt að lesa ekki dálítið eftir merka höfunda svo maður getur þá að minsta kosti haft einhvern snefil af sjálfstæðri skoðun um ritverk þeirra, af því að maður er nú manna á meðal, og vill gjarnan vita og skilja það sem fram fer í kringum mann.

Það er Lára Ólafsdóttir (1867-1932) sem þarna heldur á pennanum. Hún var lærður ljósmyndari en á þessum tíma verslunarstjóri merkilegrar verslunar á Oddeyri (Akureyri), Sápubúðarinnar, sem þar (og í Reykjavík) hringdi inn tíma hreinlætis og híbýlprýði. Lára er fræg í sögunni fyrir að vera konan sem Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson (1924) er stílað til. Hún var mikill áhugamaður um guðspeki, tók þátt í starfi Systkinabandsins svonefnda á Akureyri og var einnig í hinum ágæta félagsskap Stjarnan í austri. Þórbergur kynntist henni á guðspekiþingi á Akureyri 1922. Lítið er vitað um Láru, nema hvað ferill hennar sem ljósmyndara hefur verið ágætlega skráður (Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945 (2001), bls. 274) og vikið er lítillega að henni í óútgefnu ævisöguhandriti bróður hennar, hins auðuga athafnamanns Péturs A. Ólafsonar (1870-1949). Öllum sendibréfum til hennar og einkaskjölum mun hafa verið fargað fyrir eða eftir lát hennar 1932. Hún skrifaðist á við ýmsa merkismenn og þarna hefur því margt áhugavert efni farið forgörðum. Engin bréf til hennar eða frá henni eru varðveitt í Landsbókasafni eða á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Fyrir tilviljun fékk ég í sumar í hendur afrit fáeinna sendibréfa sem hún skrifað ungum manni á árunum 1917 til 1927. Hvarflaði að mér eftir lesturinn að nú hundrað árum eftir að bók Þórbergs kom út væri kannski tilefni til að gefa út Bréf frá Láru! En þótt bréf Láru (og fleiri í sama safni) séu um margt forvitnilegt, einkum í því samhengi sem ég er að skoða, rísa þau tæpast undir útgáfu. Lára er hins vegar ein af þessum merkilegu og áhugaverðu konum fyrri tíðar sem því miður hafa ekki notið þeirrar umfjöllunar og sannmælis sem þær eiga skilið.

Lára Ólafsdóttir sem oftast er kennd við Sápubúðina á Akureyri snemma á öldinni sem leið.

Ungi maðurinn sem hún skrifaðist á við var að lesa guðfræði, hallaðist að hinni nýju og frjálslyndu, sem þá var í tísku, og guðspekin vakti því áhuga hans. En hann var gagnrýnin á hana og hafði ýmislegt út á boðskapinn að setja sem Láru fannst ástæðu til að ræða. Í tilvitnuninni hér í upphafi er hún að bregðast við orðum hans um að hann sé lesa Önnu Karenínu eftir Tolstoj, vísast á dönsku. Lára er áhugasöm um kveðskap og vill að ungi maðurinn sýni sér kvæðin sem hann er fást við í tómstundum en feiminn við að sýna. Lofar hún að sýna engum og brenna bréfin strax og hún hefur lesið þau.

Ekkert er, vitað um viðbrögð Láru við bréfinu sem Þórbergur sendi henni og síðar bókinni þegar hún kom út, annað en það sem Þórbergur segir í samtali við Matthías Johannessen í bókinni Í kompaníi við allífið (1959). Þar kveðst hann ekkert hafa heyrt í Láru eftir að hann sendi henni eintak af bréfinu. Það hafi verið svolítið frábrugðið öðrum eintökum sem hann gerði. Ekki kemur fram í hverju mismunurinn fólst, hvort eintak Láru var styttra eða efnislega frábrugðið því handriti sem prentað var. Í viðtalinu segist hann ekki hafa hugmynd um hvað orðið hafi um handritið eftir að Lára lést. „Ætli það hafi ekki lent hjá frændfólki hennar,“ segir hann við Matthías og bætir við: „Það var óbóklæst fólk, en hafði vit á peningum.“ Svo lýsir Þórbergur Láru: „Hún hafði stórt nef eins og ættin. Hún var mikill guðspekingur og eg hafði mér það til skemmtunar að koma henni til að hlæja með óviðurkvæmilegu tali um guðspekileg efni.“ Þá segir Þórbergur að Lára hafi verið nokkuð gömul, miklu eldri en hann. „Og fremur ófríð eins og fleiri í ættinni, og í öllum ættum. En ég kunni vel við hana. Við komum oft til hennar á guðspekiþinginu á Akureyri og fengum alltaf kaffi. Það var gaman að láta hana hlæja.“ Þórbergur segist hafa frétt að Lára hafi veikst og legið á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn. (Það var reyndar í Svendborg á Fjóni sem hún lá). „Mér er sagt, að hún hafi haft bréfð á borðinu hjá sér. Hún var ekki farin að opna það, þorði það ekki. En svo áræddi hún að opna það. Og þá fór henni að batna. En ég veit ekki hvort þetta er satt.“

Þórbergur víkur líka að Láru í samtímaheimild, tveimur bréfum til Sólrúnar Jónsdóttur skrifuðum á Ísafirði 1. júlí og 6. ágúst 1922. Þau eru prentuð í bókinni Bréf til Sólu (1983). Þórbergur dvaldi þá hjá Vilmundi Jónssyni lækni. Í fyrra bréfinu segir Þórbergur frá því að nokkrir þátttakenda á guðspekiþinginu hafi farið í kaffi heim til „kerlingar einnar, er Lára Óafsdóttir heitir, systir Péturs Ólafssonar kaupmanns í Reykjavík.“ Lára bjó þá á Brekkugötu 7. Þórbergur segir að Lára sé „góð og göfug manneskja og bráðgreind.“ Hafi hann gefið henni ljóðabók sína Hvíta hrafna.

Í seinna bréfinu til Sólu segir hann henni frá spjalli sínu við Vilmund lækni þar sem Láru bar á góma. Hann er þá greinilega búinn að gleyma að hann hefur áður minnst á Láru við Sólu. „Á Akureyri fann eg varla nokkurn mann, sem eg hafði verulega gaman af að tala við,“ skrifar hann. „Þó kyntist eg þar 57 ára gamalli piparjómfrú. Hún heitir Lára Ólafsdóttir, systir Péturs kaupmanns Ólafssonar í Reykjavík. Láru þessa líkaði mér vel við. Hún hefir sápuverslun þar í bænum. Heim til hennar vorum við boðnir og vel komnir nokkrir Reykvíkingar, sem saman vorum á Akureyri. Þar höfðum við eins konar málfundasamkundur á kvöldin. Á eftir drukkum við kaffi eða soðið vatn. Lára er góðhjörtuð manneskja, ekki laus við að vera skemtileg, en hefir afneitað heiminum.“

Svo mörg voru þau orð.

























































































Next
Next

Kandidatinn glæsilegi og áhrif hans