„Kom eins og stormvindur inn á skrifstofuna”
Bændur mótmæla ritsímanum fyrir framan Stjórnarráðið 1905. Þeir trúðu því að loftskeyti væru ódýrari og hagkvæmari lausn. Mótmælin fengu mikið á Hannes Hafstein ráðherra.
Í ársbyrjun 1906 er hafist handa um að leggja rúmlega 600 kílómetra langa símalínu á milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar þar sem sæstrengur ritsímans kemur á land frá Færeyjum og Skotlandi. Við þetta mikla verk, sem á eftir að valda aldahvörfum á Íslandi, starfa um 300 manns fram á haustið, að stærstum hluta verkamenn frá Noregi.
Um sumarið gerist kynlegt atvik sem varpar ljósi á hve mótmælin [gegn ritsímanum] undanfarna mánuði hafa gengið nærri fyrsta ráðherra Íslands [Hannesi Hafstein]. Minnsta tilefni virðist þurfa til að koma honum úr jafnvægi. „Kom hann eins og stormvindur inn á skrifstofuna til okkar, sem höfðum símamálið til meðferðar,“ skrifar [nánasti samstarfsmaður hans í Stjórnarráðinu] Eggert [Claessen] þegar hann rifjar þetta upp löngu seinna. Hannes kveðst hafa fengið fregnir af því að símastaurar sem búið var að setja niður á svæðinu frá Kollafirði og upp í Kjós hafi verið kubbaðir í sundur. Hann er ekki í vafa um að hér hafi andstæðingar símans verið að verki „og var mjög æstur“ að sögn Eggerts. „Bjóst hann við að þetta væri aðeins byrjun hermdarverka gegn símanum um allt land. Hafði hann þegar í stað ráðið við sig hvað gera skyldi og það var að skipa mann með konunglegri umboðsskrá til þess að vera rannsóknardómari í slíkum málum hvar sem var á landinu,“ segir Eggert.
Sérstakur lögreglustjóri eins og hér er um að ræða hefur [þá] ekki verið skipaður í 30 ár. Í fjarveru sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu felur Hannes Eggert þetta verk, „Svo rak hann á eftir að hafður yrði hraðinn á, að þrem klukkustundum síðar var hinn nýskipaði rannsóknardómari kominn af stað með fylgdarmanni og tvo til reiðar fyrir hvern, auk töskuhesta.“ Skjöl málsins í Stjórnarráðinu sýna reyndar að ferðin var ekki farin fyrr en daginn eftir, en frásögn Eggerts er að öðru leyti í samræmi við skýrsluna sem hann skilaði ráðherra.
Norskir símalagningarmenn skammt frá Húsavík 1905.
[Í ljós kemur fljótlega að] engir símastaurar hafa verið felldir heldur liggja afgangsstaurar á víð og dreif meðfram línunum og villir það einhverjum sýn. Um kvöldið er Hannes Hafstein á gangi í Lækjargötu og mætir þá erindrekum sínum sem eru að koma aftur í bæinn. „Var hann heldur þungbrýnn þegar rannsóknardómarinn stöðvaði hest sinn og heilsaði honum. Lét Hannes í ljós lítið álit á dugnaði rannsóknardómarans en hann gat afsakað sig með því að enginn fótur hefði verið fyrir sögunni um skemmdir á símastaurunum.“
Daginn eftir er Eggert kallaður á skrifstofu ráðherrans „sem var leiður yfir því, er gerst hafði, en aldrei varð upplýst, hvernig fregnin um skemmdarverkin hafði borist út.
Þetta er rammagrein úr bók minni Claessen, saga fjármálamanns (Reykjavík 2017), bls.107. Innan hornklofa eru orð til frekari skýringar á textanum.