Kandidatinn glæsilegi og áhrif hans
Þórbergur Þórðarson rithöfundur (1888-1974).
Á einum stað í frægri ritgerð Þórbergs Þórðarsonar um mál og stíl „Einum kennt, öðrum bent“ er eftirfarandi klausa sem ætla verður að einhverjir lesendur hafi hnotið um:
Fyrir rúmum 60 árum kom íslenzkur kandidat hingað til höfuðstaðarins, nýútskrifaður frá háskólanum í Kaupmannahöfn. Hann hafði heldur en ekki fréttir að færa: Nú er búið að sanna það úti í löndum, að það er enginn guð til og ekkert líf eftir dauðann. Þessi boðskapur var þá að vísu ekki óþekktur með öllu hér á landi. En það var þó fyrst eftir tilkomu kandidatsins, að frétt þessi fékk sannfærandi megin og hlaut almenna hylli. ... þessi kandidat var gáfaður, og þarauðauki var hann glæsilegur og spásséraði um götur höfuðstaðarins í ljósum sumarfötum uppá útlendan móð og veifaði silfurbúnum staf í hendi. Þetta var nú eitthvað fyrir heimagerðu lambhúshettuna að líta upp til. Svona maður hlaut að vita sannleikann um guð og sálina ... Og flestir, sem teljast vildu til hinna upplýstari manna kepptust við að reyta af sér tötra úreltrar fáfræði um guð og sálina: Það er enginn guð til. Það er ekkert líf til eftir dauðann. Svo hefur margfróður maður sagt höfundi þessarar ritgerðar, að þá hafi skipt um andlega lífið meðal menntamanna í Reykjavík á einu til tveimur árum.
(Þórbergur Þórðarson: „Einum kennt, öðrum bent.“ Helgafell 3. árg., 5.-10. hefti, (september 1944), bls. 210)
Ritgerðin birtist upphaflega í tímaritinu Helgafelli haustið 1944. Spurningin sem hlýtur að hafa vaknað meðal lesenda er: Hver var þessi kandidat sem hafði svona mikil áhrif á andlegt líf í Reykjavík einhvern tíma á árunum ca 1879 til 1883? Þórbergur var ekki fæddur á þeim tíma en kannski heimildarmaður hans (hinn „margfróði maður“). Á fimmta áratugnum sat Þórbergur við fótskör aldraðs klerks, séra Árna Þórarinssonar, og skráði ævisögu hans. Kom ævisagan út í sex bindum á árunum 1945 til 1950 og varð metsölurit. Árni kom til Reykjavíkur 17 ára gamall vorið 1877. Hann hóf nám í Lærða skólanum haustið 1879 og varð stúdent 1884. Líklegt er að Árni sé „margfróði maðurinn,“ heimildarmaður Þórbergs.
Séra Árni Þórarinsson.
Þá er næst að fletta upp í ævisögunni og kanna hvort þar megi finna einhver ummerki um söguna af kandidatinum í ritgerðinni í Helgafelli.
Og viti menn! Í öðru bindi ævisögunnar Í sálarháska sem kom út fyrir jólin 1946 hefur Árni orð á umskiptum í andlegu lífi í Reykjavík þegar hann var ungur maður.
Sú kvöð hvíldi [...] á skólasveinum [Lærða skólans] að vera til altaris [í Dómkirkjunni í Reykjavík] á hverju hausti skömmu eftir skólasetningu. Ég var í kirkju, þegar þessi athöfn fór fram haustið 1877. Ég sat niðri í kirkjunni, á yzta bekk frammi við ganginn. Þegar komið var að útdeilingu, varð dynur mikill, er skólapiltar risu allir úr sætum sínum og gengu á stígvélaskóm fram kirkjuloftið, niður stigana og inn gólfið að altarinu. Mér varð starsýnt á þessa prúðu fylkingu, og ég hugsaði með sjálfum mér: Hér eru allir jafnir. Hér sér maður engan mannamun. Hér eru synir landshöfðingjans jafnvirtir fátækum bændasonum. Og þeir gengu allir með andakt og flestir með tárvot augu að altarinu og frá því.
Þetta er óneitanleg glögg og áhrifamikil lýsing. Árni heldur svo frásögninni áfram:
En svo kom fyrir dálítið atvik. Nokkru síðar en þessi altarisganga fór fram í Dómkirkjunni, kemur til landsins kandidat með láði frá Hafnarháskóla. Eftir honum berast þau tíðindi út um bæinn svona eins og verzlunarfréttir, að það sé enginn Guð til. Og sú saga var líka eftir honum höfð, að þessi Guð, sem fólk tryði á, hann dygði nú ekki einu sinni til að vera hreppstjóri á Seltjarnarnesi. Það var brosað að þessu fyrst í stað. En fréttin hafði þó fljótlega þær afleiðingar, að nú var farið að tala af áhuga um trúmál í latínuskólanum, og það skraf varð sízt til þess að glæða trúna.
Enn segir séra Árni:
Einu ári eftir þetta, haustið 1878, var ég enn í kirkju, þegar skólapiltar voru til altaris. En þá voru orðin ljót umskipti. Þá sá ekki svipbrigði á nokkru andliti og öll augu þurr. Þetta fór svo að breiðast út um landið og öll Norðurlönd. Og svo tóku skáldin við, og þá var nú asninn innleiddur í galskapinn.
En miklir skelfilegir aumingjar eru nú manneskjurnar, að hlaupa eftir öðru eins fleipri og þessu. „Hver segir það?“. „Hann kvað segja að enginn Guð sé til.“ Ja, það eru þó tíðindi, þetta. Það setur að mér ógleði, þegar ég hugsa um svona fáráðlinga.
(Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar. Fært hefur í letur Þórbergur Þórðarson. Fyrra bindi (3. útg. 1999), bls. 249-250).
Svo mörg voru þau orð. Eftir þessu ætti það að vera síðla hausts 1877 og um veturinn 1878 og fram eftir árinu að guðleysisboðskapur kandidatsins frá Kaupmannahöfn fór eins og eldur í sinu um Lærða skólann og önnur vígi menntaðra manna í Reykjavík. Það er 66-67 árum fyrir 1944, en má þó líklega teljast „rúmlega 60 ár.“
Blæbrigðarmunur og svolítill efnislegur munur er á frásögnunum í Helgafelli annars vegar og ævisögu Árna hins vegar. Sagan er nákvæmari í nýju gerðinni en í tímaritinu, en ýmsu er þó sleppt og boðskapur kandidatsins reynist ekki alveg eins afdrifaríkur. Í bókinni er ekki nefnt að kandidatinn hafi verið „glæsilegur“ og „spássérað um götur höfuðstaðarins í ljósum sumarfötum uppá útlendan móð og veifað silfurbúnum staf í hendi.“ En því er bætt við að kandidatinn hafi hlotið framúrskarandi einkunn í háskólanum í Kaupmannahöfn. Altarisgöngurnar í Dómkirkjunni haustin 1877 og 1878 eru ekki nefndar í upphaflegu frásögninni, en í ævisögunni verða þær sönnun fyrir áhrifamætti kandidatsins - óbrigðull vitnisburður sjónarvotts um þáttaskilin í viðhorfum til guðs og annars lífs.
Séra Árni Þórarinsson ætti samkvæmt almennum reglum að teljast ágætur heimildarmaður, þótt langt sé um liðið þegar frásögnin er skráð. Hitt er að vísu vandamál að vitað er að Árni hafði öðru fremur gaman að því að segja góðar sögur og þótti gjarnan ýkja hlutina, jafnvel skrökva sögðu sumir, í þágu góðrar frásagnar. Alkunna er að eftir að það spurðist út að Þórbergur væri að skrá sögu Árna lét orðheppinn maður (Árni Pálsson prófessor að sagt er) þau eftirminnilegu ummæli falla að þarna mættust „lygnasti maður landsins“ (séra Árni) og „sá trúgjarnasti“ (Þórbergur). Til þessara orða var vitnað í blöðum stuttu eftir að ævisagan hóf að koma út – og löngum síðar. Þetta fór víst ákaflega í taugarnar á Þórbergi sem vísaði þessu á bug í minningargrein um Árna í Þjóðvijanum 1948 eins og síðar verður vikið að.
En ef við göngum út frá því að eitthvað sé hæft í sögunni af kandidatinum, hún sé ekki uppspuni frá rótum, liggur beint við að kanna hvaða menn komu heim til Íslands 1877 til 1878 eftir að hafa nýlega úrskrifast frá háskólanum í Kaupmannahöfn. Um það eru til góðar skrár í riti Bjarna Jónssonar Íslenzkir Hafnarstúdentar (1949) og oft er vikið að heimkomu kandidata í íslenskum blöðum og tímaritum frá þessum árum.
Gestur Pálsson.
Til að gera langa sögu stutta leiðir athugun í ljós að það er aðeins einn íslenskur kandidat frá Kaupmannahöfn sem til greina kemur í þessu samhengi. Það er Gestur Pálsson (1852-1891), síðar rithöfundur og ritstjóri, sem lagði stund á guðfræði í Kaupmannahöfn. Gestur kom heim í námshléi vorið 1877 og hafði þá aðeins lokið prófi í forspjallsvísindum (cand. phil.) og prófi í einni námsgrein guðfræðinnar, hebresku, en hafði að vísu staðist það með góðum vitnisburði (Admissus Cum Laude), samkvæmt því sem Sveinn Skorri Höskuldsson rekur í ævisögu hans. Eftir komuna til landsins hélt Gestur til föður síns í Reykhólasveit og dvaldist þar nær óslitið í eitt ár, fram á sumarið 1878 er hann gerði stuttan stans í Reykjavík á ný á leið aftur til Kaupmannahafnar. Einu sinni á þessum tíma brá Gestur sér þó til Reykjavíkur og sat gleðskap skólapilta og stúdenta í lok júní 1877.
Telja verður óhugsandi að þessar stuttu dvalir í Reykjavík haft nægt Gesti til að snúa skólapiltum og menntamönnum frá guðstrú eða valda miklu umróti í hugum þeirra, enda bendir ekkert til þess að hann hafi þá verið orðinn sannfærður guðleysingi. Guðfræðináminu hélt áfram þegar til Hafnar kom en það gekk brösulega. En þegar hann sneri aftur til Íslands próflaus haustið 1882 og stofnaði skömmu síðar blaðið Suðra í Reykjavík fékk hann fljótt það orð á sig að vera guðsafneitari. Rektor og margir kennarar Lærða skólans höfðu illan bifur á honum og gekk það svo langt að honum var vísað úr skólahúsinu vegna óhollra áhrifa sem hann var talinn hafa á piltana.
Árni var í Lærða skólanum þegar Gestur kom heim 1882. Þórbergur hefur eftir honum að hann hafi kynnst Gesti vel og að skólapiltar hafi verið mjög hændir að honum. Gestur var ölkær og mun hann hafa varið drjúgum tíma á kaffihúsum bæjarsins sem margir skólapiltar sóttu.
Séra Árni segir: „Kærustu umræðuefni Gests voru skáldskapur og dularfull fyrirbæri. Samt kvaðst hann vera trúlaus og þóttist sannfærður um, að ekkert líf væri eftir dauðann.“
Í ævisögu Gests eftir Svein Skorra segir að í daglegri umgengni hafi Gestur verið hið mesta snyrtimenni og ávallt gengið vel til fara. Jafnframt skartmennsku í klæðaburði hafi hann verið fágaður í framgöngu og elskulegur. Þetta rímar við upphaflega frásögn Þórbergs um kandidatinn í ljósu sumarfötunum uppá útlendan móð.
(Sveinn Skorri Höskuldsson: Gestur Pálsson. Ævi og verk. I (Reykjavík 1965)).
Hafi Gestur haft mikil áhrif á skólapilta og stúdenta í Reykjavík hvað guðstrú varðar má heita öruggt að það hefur ekki verið 1877 til 1878 heldur á árunum upp úr 1882 þegar hann var áberandi í bæjarlífi Reykjavíkur. Um tímann hefur séra Árna þá misminnt eins og eðlilegt er þegar langt er um liðið og Árni orðinn aldraður maður.
Hitt er svo annar handleggur að skólapiltar virðast löngu áður en Gestur kom með skoðanir sínar til landsins hafa verið orðnir afhuga hinni gömlu guðstrú sem að þeim var haldið. Séra Matthías Jochumsson, stúdent 1863, segir í endurminningum sínum að sárafáir skólabræður sínir hafi hugsað alvarlega um „guðs orð og góða siði“.
Frásögn séra Árna um þetta mál er kannski ekki alveg staðlausir stafir, þótt hann misminni um ártöl, en málið allt er sennilega fært mjög í stílinn og ýkt eins og Árna var lagið – og Þórbergur kunni vel að meta. Um frásagnarhátt Árna eru orð Þórbergs sjálf í fyrrnefndri minningargrein besti vitnisburðurinn.
Þórbergur skrifar (eftir að hafa vísað á bug sem fjarstæðu að Árni hafi beinlínis verið lyginn maður):
Séra Árni var skáld ... Öllum slíkum mönnum er sú list í brjóst lagin, að kunna að mikla þau atriði í frásögn sinni, sem eiga að vekja sérstaka eftirtekt. Og stundum virðist dæmi þeirra svo mikil, að atvikin, sem mæta þeim i lífinu, verða mikilfenglegri og lífrænni fyrir þeirra skynjun en eftirtekt annarra manna. Eg talaði varla nokkurntíma svo við Sigurbjörn Sveinsson [barnakennara og rithöfund], að hann hefði ekki nýlega upplifað nokkra heimsviðburði. Draugar Jóhanns Jónsonar [skálds] voru engin smámenni við að fást. Stefán frá Hvítadal lék sér að því að gera hversdagslegt ástarævintýri að hátignarlegu drama. Karlar Guðmundar G. Hagalíns á Vestfjörðum líktust ekki tiltakanlega þeim Vestfirðingum, sem fyrir augu mín hafði borið á ferðum mínum um þessar byggðir, þegar hann lék þá af mestri list og hermdi eftir þeim. Og haft hef ég þá skemmtun að heyra Halldór Kiljan Laxness lýsa gömlum torfkirkjuskrokki norður á Víðimýri af svo fágaðri tilfinningu fyrir hlutföllum viðáttanna, að ég var næstum farinn að trúa, að þetta fjörefnasnauða heimskautabyggðarlag hefði eignazt sjálfa Péturkirkjuna í Róm.
Og Þórbergur bætir svo við:
Enginn þessara manna mundi þó vera talinn lyginn á almennan mælikvarða. Það var nákvæmlega þetta sama, sem gerðist í frásögnum Árna prófasts. Hann minnkaði hið litla og stækkaði hið stóra, lækkaði hið lága og hækkaði hið háa, deyfði hið litasnauða til þess að sterkjun hans á litum hins litaríka yrði því auðsærri og áhrifameiri. Og stundum gátu smámunir vaxið í allar áttir fyrir innri sjónum hans. En fyrir fólki, sem lítt kann að greina náttúru skáldskapar frá lygi verður þessi list ósannsögli og höfundurinn lygari
(„Árni prófastur Þórarinsson. Síðasti fulltrúi fornrar frásagnarsnilli,“ Þjóðviljinn 13. febrúar 1948).
Kjarni málsins er þá líklega þessi: Gestur Pálsson boðaði skólapiltum guðleysi á Reykjavíkurárum sínum. Vel má vera að það hafi haft áhrif á einhverja þeirra um lengri eða skemmri tíma. En að öðru leyti eru frásagnir séra Árna um þetta mál af skáldskaparætt, hann stækkar viðburðina og gefur þeim sterkari liti en samtímamenn hans sáu, svo vitnað sé í Þórberg. Smámunir hafa vaxið í allar áttir fyrir innri sjónum hans. Þetta er auðvitað náðargáfa en ekki sá sannleikur sem sagnfræðingar leita eftir. Enda hafa skáldin víst alltaf vinninginn yfir fræðimennina þegar um vinsældir og áhrif er að tefla!