Fornmenn og víkingar
Fornaldarmaður verður víkingur
Þegar Sigurjón Ólafsson sýndi þessa höggmynd fyrst á Septembersýningunni í Listamannaskálanum í Reykjavík 1951 hét hún Fornaldarmaður. Þegar verkið var sýnt í Danmörku nokkrum árum seinna var það nefnt Víkingur og hefur haldið því nafni síðan. Þetta er lýsandi dæmi um áhrif að utan á íslenskar hefðir og málvenjur.
Á síðustu árum hefur verið dregin upp víkingamynd af Íslendingum til forna sem á ekki við nein rök að styðjast. Samt er hún að verða ríkjandi hér á landi. Þessi mynd er hvorki í samræmi við rétta merkingu orðsins víkingur í málinu, sögulegar hefðir eða hlut víkinga í Íslandssögunni. Hvernig gerðist þetta og hvers vegna? Reynt er að svara því í þessari grein.
„Ég er víkingur, ekki eskimói,“ hrópaði aflraunamaðurinn frækni, Jón Páll Sigmarsson, gjarnan þegar hann lyfti lóðum. En hafi þessi sterkasti maður heims á sinni tíð verið víkingur var hann það ekki í hinni gömlu og hefðbundnu merkingu Íslandssögunnar og fornbókmenntanna. Orðið víkingur hefur á síðustu árum fengið almennari og víðtækari merkingu hér á landi en áður var. Það er fyrir áhrif að utan þar sem þessi merkingarbreyting á sér langa sögu. Víkingur er orðið samheiti yfir alla norræna menn á 9. öld og fram á hina 11., „víkingaöldinni“ svonefndu, jafnt friðsama menn sem ófriðsama, konur og börn ekkert síður en fullorðna karla. Hví þá ekki að tala afkomendur þeirra sem víkinga? Þurfa ekki að vera hreystimenni eins og Jón Páll var, þót það sé frekar í stíl við ímynd víkinganna gömlu. „Víkingar með skjalatöskur“ voru kaupsýslumennirnir okkar nefndir í útlöndum á tímum útrásarinnar sællar minningar. Og hnykluðu þó ekki vöðva.
Þegar horft er til heimilda um víkinga til forna er erfitt að skilja og réttlæta þessa nýju merkingu. En hún fyllir greinilega upp ieitthvert tómarúm; það hefur vantað orð til að tjá hugmynd um norræna menn og sögu þeirra. Á Íslandi streittust menn lengi á móti því að taka þátt í þessu – og gera sumir enn – en aðrir segja að stríðið sé tapað. Við ramman reip er að draga sem er hinn alþjóðlegi víkingaiðnaður afþreyingar og ferðaþjónustu. Víkingar eru góður bisness í nútímanum; birtist það m.a. í bókum og kvikmyndum, sögusýningum, víkingahátíðum og minjagripum. En átti menn sig ekki á því að sama orðið er nú haft um tvö ólík hugtök lenda þeir í vandræðum þegar þeir lesa fornritin okkar: Íslendingasögur, fornaldarsögur og konungasögur Norðurlanda. Og fleiri gamla texta.
Athyglisvert er að hinn mikli áhugi sem er á sögu víkinga um heim allan beinist einna mest að vopnaburði, hetjuskap og hreysti hinna norrænu karla og herferðum þeirra til Bretlandseyja og meginlands Evrópu, síður að samfélaginu sem ól þá og daglegu lífi fólks fyrr á öldum. Það er víkingurinn sem óheflaður harðjaxl með vopn á lofti, öxi, spjót eða sverð, sem fangar athyglina og mótar ímyndina. Þetta sáum við síðast í sjónvarpsþáttaröðinni um garpinn Ragnar loðbrók, en hún fór sigurför um heiminn. Því má segja að ýmislegt sé líkt með víkingum hvort sem talað er um þá í fornri eða nýrri merkingu. Munurinn er þó sá að áður fyrr hugsuðu menn sér víkinga sem fámennan hóp á jaðri þjóðfélagsins; nú sjá menn Norðurlöndin fornu nánast fyrir sér eins og eitt risastórt víkingaþorp þaðan sem stöðugt heyrist sverðaglamur, spjótadynur og stríðssöngur.
Löng saga
Dæmi eru um orðið víkingur í ritheimildum allt frá sjöundu öld, það þekkist t.d. í fornensku (wicing)) og frísnensku auk norrænu, en vafalaust er það miklu eldra; fræðimenn eru ekki einhuga um uppruna þess og nákvæma frummerkingu. Flestir eru þó löngu fallnir frá þeirri hugmynd að heitið sé dregið af Víkinni við Osló eins og jafnan var kennt í skólum hér fyrr á árum. Og í sjálfu sér má segja að orðsifjarnar, sem varla verða nokkru sinni raktar til hlítar, séu aukaatriði. Aðalatriðið er að átta sig á því hvernig orðið var notað; hvað átt var við þegar talað var og skrifað um víkinga til forna. Heimildir frá víkingaöldinni sjálfri eru af skornum skammti, en úr þeim eins og íslenskum heimildum frá miðöldum, kvæðum og sögum, verður tæpast önnur merking lesin en sjóræningi og illgerðamaður. Í íslensku ritheimildum eru líka notuð um víkinga orð eins og útilegumaður, ránsmaður, þjófur og illvirki og hnígur þá allt í eina átt. En orðið er ekki aðeins notað um norræna menn í fornsögunum okkar; víkingarnir eru stundum af þjóðerni Eista og Vinda og kappar frá Norðurlöndum lenda í bardögum við innlenda víkinga lengst í austurvegi og við strendur Spánar.
Í fornenskum heimildum kemur berlega fram að orðið wicing vísar á sjóræninga. En þau skipti sem orðið kemur fyrir má telja á fingrum sér. Þegar til dæmis annálaritarar í Bretlandi sögðu frá ribböldum úr norðri, sem gerðu usla í klaustrum og á kirkjustöðum, notuðu þeir orð eins og heiðingjar, illmenni, villimenn eða guðleysingjar, svo aðeins sé vitnað til prúðmannlegri ummælanna sem um þá voru höfð. Gjarnan var tekið fram að þeir væru Norðmenn eða Danir, en fyrr á öldum var reyndar lítill munur gerður á íbúum Norðurlandanna, enda voru þeir einnar tungu. Í Frakklandi, þar sem norrænir menn, voru aðsópsmiklir og stofnuðu nýlendu, hétu þeir ætíð Normands á frönsku eða Normanni á latínu.
Orðið víkingur varðveittist aðeins á Íslandi, þar sem hinn gamli skilningur er enn lifandi þótt hann sé farinn að láta undan síga. Til marks um lífsmátt orðsins í okkar tungu er að í ritheimildum allt frá 16. öld og fram til 20. aldar er gjarnan talað um sjóræningja og ránsmenn sem hingað sigla frá útlöndum sem víkinga; orðið er til dæmis notað um óþokkana frá Alsír í samtímaheimildum um Tyrkjaránið, svo sem í skrifum Björns Jónssonar á Skarðsá. Í hinu gamla föðurlandi okkar, Noregi, glataðist orðið alveg eins og tungan forna. Þegar Heimskringla var gefin út þar í landi árið 1633 í frægri þýðingu Peder Claussøn Friis var orðið sjóræningi (Siørøfuere) ávallt birt í sviga fyrir aftan orðið víkingur til að norskir lesendur velktust ekki í vafa um hvað átt væri við.
Í senn hetjur og grimmdarseggir
Í ensku gekk orðið víkingur í endurnýjun lífdaganna i byrjun 19. aldar. Er af því mikil saga sem Andrew Wawn hefur rakið í bókinni The Vikings and the Victorians. Þangað kom orðið úr íslenskum fornritum sem þýdd höfðu verið eða endursögð á nútímaensku. Smám saman fékk orðið miklu víðtækari merkingu og stundum annan brag; víkingar urðu jafnvel hetjur og kappar fremur en illmenni eins og í sögunum. Miklu hefur ráðið um þetta að 19. öldin var tími einstaklingshyggju og hetjudýrkunar. Það var þó ekki fyrr en leið á 20. öld að farið var að nota enska víkingsheitið um alla norræna menn fyrr á tíð, menningu þeirra og þjóðfélagshætti. Sú orðanotkun ruddi sér síðan til rúms um allan heim og yfirskyggir nú algerlega hina fornu í flestum tungumálum.
Björt mynd af víkingum var engan veginn einráð í Bretlandi framan af. Þegar enskar sögubækur seinni alda fjölluðu um hernað og ránskap víkinga var myndin sem dregin var upp af þeim langt fram á 20. öld oftar en ekki af grimmum mönnum og blóðþyrstum. Á 19. öld drógu franskir sagnfræðingar líka upp heldur nöturlegar myndir af víkingum, þótt þeir notuðu ekki orðið. Fræg er teikning í Frakklandssögu Guizot 1879 af norrænum innrásarmönnum í París; þeir líkjast helst frumstæðum hellisbúum.
Þegar leið á 19. öldina fóru fræðimenn, skáld og rithöfundar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð að nota víkingsheitið í víðtækari og jákvæðari merkingu en í íslensku fornritunum. Var þeim þó áfram hampað sem helstu ritheimildum um „víkingaöldina“ sem nú var farið kalla svo; upphaflega í Danmörku og Noregi til tímasetja fornleifar og afmarka frá eldri og yngri minjum. Síðar hefur víkingaöld að enskum sið einkum verið látin ná yfir tímabilið frá 793 til 1066; er upphafið miðað við árás hóps norrænna manna á klaustrið að Lindisfarne við strönd hins gamla Norðymbralands á Englandi, en endalokin við fall Haralds harðráða Noregskonungs í orustu við Harald Guðinason Englandskong við Stafnfurðubryggju (Stamford Bridge), skammt frá Jórvík á Norður-Englandi.
Stundum freistast rithöfundar og fræðimenn þó til að teygja á víkingaöldinni og láta hana jafnvel ná fram á 13. öld. Verða þá Snorri Sturluson og Gissur jarl að víkingum!
Fram undir lok 19. aldar fékk þessi almennari notkun orðsins víkingur lítinn byr á Íslandi og meðal íslenskra fræðimanna. Gamla hefðin var svo sterk. En svo skýtur orðinu víkingaöld upp kollinum, fyrst 1879 sýnist mér i fljótu bragði, og um svipað leyti var farið að nota samheitið víkingaskip um langskip og knerri formanna, jafnt kaupmanna sem sjóræningja, en fram að því var það sjaldan notað nema um sjóræningjaskip. Gauksstaðaskipið sem Norðmenn grófu upp úr fornum haugi árið 1880 olli hér þáttaskilum, og ekki síður sá viðburður að Norðmenn sigldu eftirlíkingu af skipinu þvert yfir Norður-Atlantshafið á heimssýninguna í New York árið 1893. Skipið var látið heita Víkingur. Þetta vakti mikla athygli á Íslandi. Hægt og hljótt hélt nýja hugtakið innreið sína í íslenskt mál.
Dropinn holar steininn.
Léttvægir í þjóðarsögunni
Íslensk sagnaritun hófst á dögum Ara fróða. „Ef dæma skyldi eftir fróðleik sem í Íslendingabók er veittur virðast ekki líkur á því að nokkru sinni hafi verið víkingar á Íslandi. Víkingar eru innanstokksmunir úr sagnaskáldskap sem komst í tísku eftir daga Ara,“ skrifaði Halldór Laxness eitt sinn. Rétt er að Ari fróði nefnir víkinga ekki einu orði í Íslendingabók, fyrstu Íslandssögunni, sem rituð var snemma á 12. öld. Nær ritið þó frá landnáminu á 9. öld og fram til samtíma höfundarins, en það tímabil spannar víkingaöldina fyrrnefndu. Ekki er þó að efa að Ari fróði hefur heyrt um víkinga að fornu og nýju. Þeir koma fyrir í ýmsum gömlum kveðskap sem hann hlýtur að hafa þekkt. Kannski einnig í forneskjusögum sem á hans tíð voru sagðar fólki til skemmtunar, þótt þær hafi varla verið skráðar á bókfell á þeim tíma. Og vel má vera að víkingar hafi enn látið að sér kveða á dögum Ara, þegar siglt var meðfram ströndum Noregs, vestur um haf, um Eystrasalt og Norðursjó (þótt víkingaöld sögubókanna teljist þá yfirleitt lokið). En sennilega hefur hann vegið þetta hyski allt og metið og léttvægt fundið í samhengi þeirrar þjóðarsögu sem hann vildi halda á lofti. Landnámsmennirnir og niðjar þeirra sem Ari nefnir eru yfirleitt friðsamir bændur sem virða lög og rétt og leysa ágreiningsmál sín eins og lögin í landinu bjóða.
Fjögur hundruð ár liðu frá ritun Íslendingabókar þar til samfelld Íslandssaga var næst rakin á bók. Það gerði Arngrímur Jónsson hinn lærði í ritinu Crymogæa sem gefið var út á latínu í Hamborg árið 1609. Langir kaflar eru þar um Ísland til forna, en hvergi er minnst á víkinga frekar en hjá Ara fróða. Hafa sögur af víkingum þó ekki farið fram hjá Arngrími sem var vel lesin í íslenskum fornritum. Hann hefur ekki talið þá skipta neinu máli fyrir sögu lands og þjóðar. Árni Magnússon prófessor, sem í byrjun 18. aldar bjargaði hinum fornu skinnhandritum Íslendinga frá glötun, virðist hafa verið fullkomlega áhugalaus um víkingana fornu; að þeim er hvergi vikið í ótal minnisgreinum hans um handritin og fornsögurnar.
Þegar fornminjanefnd Danakonungs hóf skipulega söfnun upplýsinga um fornleifar og forngripi á Íslandi árið 1809 hvarflaði ekki að henni að spyrja um „víkingaminjar“ og var þó spurningaskráin sem hún sendi prestum og próföstum löng og nákvæm. „Fornaldarleifar“ var heitið sem hún notaði um minjar frá fyrstu öldum byggðar og „fornmenn“ nefndi hún íbúa landsins á þeim tíma. Prestaskýrslurnarsem nefndinni bárust á árunum fram til 1823 – og hafa verið gefnar út á bók - voru á annað hundrað; hvergi er í þeim talað um víkinga.
Rómantísku skáldin á Íslandi á 19. öld kváðu sum um fornöldina, en þar komu víkingar hvergi við sögu. Jónas Hallgímsson orti um „feðurna frægu og frjálsræðishetjurnar góðu.“ Hjá honum „riðu hetjur um héruð og skrautbúin skip [voru] fyrir landi.“ Gunnar á Hlíðarenda er „frægðarhetjan góða“ sem „heldur vildi bíða hel en horfinn vera fósturjarðar ströndum.“ Enginn þekkti sögu og bókmenntir Íslendinga til forna betur en Jón Sigurðsson forseti, lærðasti maður þjóðarinnar í fornfræðum á 19. öld, útgefandi fornbréfa og fornrita. Aldrei talaði hann um forfeður okkar sem víkinga.
Undir lok 19. aldar og í byrjun hinnar 20. voru nýrómantísku skáldin á Íslandi þó farin að yrkja um víkinga sem afreksmenn og hetjur; nefna má Væringja Einars Benediktssonar og síðar Viking Jóhanns Sigurjónssonar. Þar gætir greinilega áhrifa frá skáldskap og fræðum á Englandi og á Norðurlöndum. Benedikt Gröndal skáld lét daðrið við víkingana, viðleitnina til að fegra hlut þeirra i sögunni, fara í taugarnar á sér, þótt tilefnið væri ekki kveðskapur skáldanna. Í harðorðri blaðagrein árið 1892 minnti hann á að víkingarnir hefðu verið „óþjóðalýður.“ „Víkingarnir“, skrifaði hann, „vildu ekkert nema gull og gersemar, og fólk til að þrælka, en eyddu öllu sem fyrir varð, hin dýrðlegustu listaverk, erfiði margra alda, skrautbyggingar og alls konar blómi landanna: allt var eyðilagt, brennt og brotið, en hóranir, fyllirí og grimmd fylgdi þeim eins og skugginn, og eru til nóg rit samtíða annálaritara, sem sanna þetta.“
Víkingar í hinni víðtækari merkingu orðsins voru oftar nefndir á nafn í íslenskum ritum þegar leið á 20. öldina, en flatneskjan sem nú ríkir í allra opinberri umfjöllun um víkingafortíð Íslendinga kom þó varla til sögu fyrr en á allra síðustu áratugum aldarinnar og í byrjun þessarar. Heita má að víkingar hafi verið aukapersónur í flestu sem ritað var um Íslandssöguna fram að því þar á meðal sögukennslubókum skólanna.
Fornkappar en ekki víkingar
Víkingar koma fyrir í allmörgum íslenskum bókmenntaverkum 12. og 13. aldar, þar sem sögusviðið er landnámsöld og tíminn fram að kristnitöku (Íslendingasögur og konungasögur) eða löngu fyrr (fornaldarsögur). Allur þorri þeirra er nafnlausir menn og andlitslausir, oftar er fjallað um þá sem hóp en einstaklinga; höfundar sagnanna hafa gripið til „staðalmyndar“ frekar en að leggjast í flókna persónusköpun. Enginn af köppum Íslendingasagna er sagður víkingur. Ekki Gunnlaugur ormstunga, Gísli Súrsson, Grettir Ásmundarson, Björn Hítdælakappi, hvorki Bolli né Kjartan Ólafsson í Laxdælu, ekki Víga-Styr, Hrafnkell Freysgoði, hvorki
Gunnar á Hlíðarenda né Njáll á Bergþórshvoli, Finnbogi rammi eða Víga-Glúmur, Leifur heppni eða Þorfinnur karlsefni og ekki Snorri goði. Enn síður eru kvenskörungar eins og Guðrún Ósvífursdóttir, Guðríður Þorbjarnardóttir, eða Hallgerður og Bergþóra í Njáls sögu tengdar víkingum í fornsögunum. Og ekki foringjar kristnitökunnar árið 1000 samkvæmt Ara fróða, Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason eða lögsögumaðurinn snjalli sem lagðist undir feldinn, Þorgeir Ljósvetningagoði. Meira að segja sjálfur Egill Skallgrímsson, sem var ekki nema sex ára gamall þegar móðir hans kveður hann „víkingsefni“, er aldrei nefndur víkingur í Egils sögu. Hann er þó stundum í slagtogi við víkingaflokka og ekki er framferði hans mikið frábrugðið þeirra nema síður sé.
Í Landnámabók, sem rituð var á 12. og 13. öld, eru víkingar ekki fyrirferðarmiklir. Heitið er þar notað um innan við 5% hinna rúmlega 400 landnámsmanna sem nafngreindir eru. Fjöldinn er til marks um hvaða hugmyndir lærðir Íslendingar á ritunartíma bókarinnar hafa gert sér eða viljað sýna um hlut víkinga í landnáminu. Og þarf svo sem ekki að koma á óvart. Má vel eiga við rök að styðjast, þótt ekki sé Landnámabók lengur talin traust heimild um landnámsöldina. Varla hefur Ísland á þeim tíma verið spennandi staður fyrir víkinga sem vildu rupla og ræna: óbyggðir úr alfaraleið nyrst í hafi þar sem ekkert fémætt var að finna.
Ýmislegt forvitnilegt er sagt um víkinga í ritinu. Ölvir barnakarl, sem sagður er afi tveggja landnámsmanna, fær sérstakt hrós. „Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt.“ Sögur af norrænum bardagamönnum sem köstuðu börnum á loft og gripu á spjótaoddum mátti finna í víðlesnu ensku sagnariti frá 12. öld eftir Henry af Huntingdon. Þaðan gæti hugmyndin verið komin til Íslands. Landnámsmaðurinn Þorbjörn bitra er sagður „víkingur og illmenni.“ Um víkinginn Þorsteinn Ásgrímsson er sagt að fyrir Íslandsferðina hafi hann brennt bæ í Þrumu í Noregi með hjúum öllum en rænt lausafé. Um víkinginn Hella-Björn Herfinnsson er sagt að hann hafi siglt til Íslands með alskjölduðu skipi; síðan hafi hann verið kallaður Skjalda-Björn. Hann hefur þá viljað vera viðbúinn hinu versta á leiðinni. Þetta hefur verið talið óvenjulegt úr því Björn fékk viðurnefni af skjöldunum. Víkingar gátu líka verið ógn við landnámsmenn á leið til Íslands. Þórir nokkur snepill var kominn á haf út þegar víkingar birtast skyndilega. Skipverji hans einn sýnir það hugrekki að höggva til stafnbúa víkinganna með stýrissveif skipsins. Forðuðu víkingar sér þá á brott og komst Þórir heilu og höldnu til Íslands með fólk sitt. Ekki bendir þessi frásögn til þess að víkingar hafi verið álitnir sérlega hugrakkir menn, frekar vandræðamenn sem gefist upp við minnsta mótbyr.
Bókfellsvíkingar?
Velta má fyrir sér hvað höfundar Landnámabókar og sagnanna, kristnir munkar og lærðir menn í höfðingjastétt, vissu fyrir víst um fornvíkinga sem upp voru tvö, þrjú eða fjögur hundruð árum áður en þeir fæddust? Hvað gátu þeir vitað? Hverjar voru heimildir þeirra? Um innanlandsviðburði var í upphafi eingöngu hægt að styðjast við arfsagnir. Kannski var hægt að leita í sjóð sagna og ljóða sem lifðu og mótuðust á vörum manna og gengið höfðu á milli kynslóða. En eðli málsins samkvæmt voru þetta ótraustar heimildir. Atburðirnir höfðu gerst mörg hundruð árum fyrr. Hinn sannsögulegi kjarni þeirra, hafi hann yfirleitt verið fyrir hendi, gat verið týndur þegar farið var að skrá sagnirnar eða kvæðin. Engin leið var að skera úr um hvað var byggt á staðreyndum og hvað var tilbúningur. Lærdómsmenn miðalda gerðu að vísu greinarmun á lygisögum sem eingöngu voru til skemmtunar, fabulae, og sagnfræðilegum verkum, historiae. En heimildarýni þeirra var allt önnur en nútímamanna. Á miðöldum var til dæmis talið gott og gilt að álykta um forsögulegar persónur út frá örnefnum. Ættartölur voru settar saman út frá tilbúnum forsendum, en gjarnan af miklum lærdómi. Munur þess sem gerðist og hefði getað gerst var ekki alltaf skýr. Kristin trú og lærdómur mótuðu líka sjónarmið höfundanna; sögulegir atburðir voru gjarnan endurskapaðir og túlkaðir í ljósi kristinna lífsviðhorfa.
Á 12. og 13. öld höfðu margir Íslendingar farið til útlanda í ýmsum erindum, námsferðum, vígsluferðum eða pílagrímsferðum. Þeir kynntust evrópskri bókmenningu og höfuðrit um sögu Evrópuþjóðanna hafa ekki farið fram hjá þeim. Þetta hefur vakið löngun þeirra til að semja sams konar verk um land sitt og þjóð, segja frá uppruna landsmanna, stóratburðum og merkismönnum. Erlendra áhrifa og fyrirmynda gætir að einhverju leyti í öllum íslenskum miðaldaritum, en þau eru gjarnan aðlöguð innlendum hefðum. Sum þessara erlendu rita voru sögubækur sem fjölluðu um framferði norrænna manna á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu á 9., 10. og 11. öld. Varla þarf að efast um að lestur þeirra hefur haft áhrif á Íslendingana og orðið þeim ærið umhugsunarefni. Ætla verður að margir þeirra hafi þekkt hina miklu kirkjusögu Adams frá Brimum sem rituð var um 1070. Þar segir berum orðum að norrænir menn kalli sjóræningja (pyratae) víkinga (Wichingos). Hafi Íslendingar ekki þekkt orðið á heimaslóðum, var úr því bætt eftir lesturinn. Kannski er það einmitt ástæðan fyrir því hve íslensku víkingarnir í fornsögunum eru flatir og óspennandi að þeir eru „innfluttur varningur“; hafa aldrei verið til á Íslandi nema á bókfellinu svo vitnað sé í Hermann heitinn Pálsson. Fornkappar Íslendingasagna eru á hinn bóginn litríkir og margbrotnir einstaklingar, vafalaust vegna þess að hugmyndin að baki þeim á rætur í landinu sjálfu og norrænni menningu; þeir eru sprottnir úr ættarsögum, þjóðsögum og ljóðum á vörum landsmanna.
Eftir höfðinu dansa limirnir
Í sumar sem leið efnt til víkingahátíðar á Austurvelli í Reykjavík, Ingólfshátíð var hún nefnd í höfuðið á landnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni. Erlendis eru slíkar samkomur algengar og íburðarmeiri en hér og sækir þær mikill fjöldi fólks. Ég átti leið framhjá og virti af forvitni fyrir mér tjaldbúðirnar og fólk á ýmsum aldri í fornlegum
búningum. Í fjarska voru sumir vígalegir með sverð og spjót og skildi. Þegar nær var komið voru andlitin vinaleg og engin ástæða til að vera smeykur. Gat ég ekki annað en en dáðst að þessu framtaki, eldmóð þátttakenda og þeim sögulega áhuga sem þetta tilstand allt var til vitnis um. Hér vildu menn halda Íslandssögunni til forna lifandi. Það á að hrósa fólki fyrir það. En af hverju þurfa hinir allir hinir fornu landar okkar að heita víkingar nú á dögum? Ekki hefði þeim sjálfum þótt sómi af því.
En almenningi er svo sem vorkunn. Fræðimenn okkar hafa verið heldur linir við að taka á þessari merkingarbrenglun sem er þó miklu verri í íslensku en erlendum málum vegna málhefðar okkar og bókmennta.
Kannski gildir hér líka eins og víðar að eftir höfðinu dansa limirnir; í nýlegu erindi til heimsminjanefndar Unesco, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, kallar mennta- og menningarmálaráðuneytið fornleifar á Þingvöllum „víkingaminjar.“ Hræddur er ég um að ekki hefði verið gerður góður rómur að þeim málflutningi á Lögbergi til forna.