Þegar Steini Steinarr var synjað um skáldastyrk

Margir kannast við ljóð Steins Steinars „Að fengnum skáldastyrk“ sem birtist fyrst í bók hans Ferð án fyrirheits 1942. Það var ort til að fagna því að skáldið hafði hlotið náð fyrir augum menntamálaráðs, er þá úthlutaði skáldum og listamönnum styrkjum til ritstarfa og annarrar listsköpunar. Það byrjar svona:

Svo oft hef ég grátið og harmað mitt hlutskipti í leynum

og horft inn í framtíð, sem beið mín þögul og myrk.

Þetta fallega kvæði er ort í þeim tilgangi einum

að óska mér sjálfum til lukku með skáldastyrk.

Það var í desember 1941 sem Steinn fékk að vita að hann fengi 1000 krónur samtals í skáldalaun. Fyrir jólin árið áður hafði hann sent frá sér ljóðabókina Spor í sandi sem vakti talsverða athygli og var m.a. auglýst á áberandi hátt á forsíðu Morgunblaðsins. Styrkurinn sem Steinn fékk var nokkur fjárhæð á þeim tíma þótt framreikningur til samtímans með verðlagsvél Hagstofunnar gefi aðeins um 190 þúsund krónur á núvirði.  Ekki er ósennilegt að Steinn hafi ort ljóðið um leið og fréttin barst. Honum varð hugsað til fyrri tíma:

Hér áður fyrr. Það er satt, ég var troðinn í svaðið.

Hvar sáuð þið mannkynið komast á lægra stig?

Ég var soltinn og klæðalaus og orti í Alþýðublaðið

og allur heimurinn fyrirleit blaðið og mig.

Steinn, sem réttu nafni hét Aðalsteinn Kristmundsson (1908-1958), birti fyrstu ljóð sín í blöðum undir skírnarnafni sínu 1931, en árið eftir og allar götur síðan undir höfundarnafninu Steinn Steinarr. Um tildrög þess að hann tók upp skáldanafn virðast engar heimildir hafa varðveist, en það var ekki óalgengt á fyrri hluta síðustu aldar og fyrr, sbr. t.d. Þorgils gjallandi (Jón Stefánsson), Jón Trausti (Guðmundur Magnússon) og Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind).

Á fjórða áratugnum birtust ljóð Steins yfirleitt í Alþýðublaðinu, en auk þess las hann stundum upp kveðskap sinn (og annarra) í Útvarpinu og hafði af því svolitlar tekjur. Fyrstu ljóðabókina Rauður loginn brann  gaf hann út á eigin kostnað í 200 eintökum rétt fyrir jólin 1934. Ekki mun hann hafa riðið feitum hesti frá þeirri útgáfu fjárhagslega fremur en prentsmiðjan Gutenberg sem annaðist prentunina og fékk hana líklega aldrei greidda. Steinn var róttækur í skoðunum á þessum árum, bolsi sögðu menn, og var meira að segja félagi í Kommúnistaflokknum um hríð. Bókarinnar var getið í nokkrum blöðum og tímaritum og þótti flestum gagnrýnendum byrjendabragur á verkinu, þótt ýmislegt væri vel gert. Nú á dögum er jafnan sagt að þessi fyrsta ljóðabók Steins standist ekki samanburð við seinni verk hans.

Steinn mun hafa verið frekar uppburðarlítill framan af og þurfti því að hleypa í sig kjarki til að koma bókinni á framfæri við menntamálaráð þar sem sátu nokkrir helstu menningarvitar landsins, kosnir til setu af Alþingi. Kristján Albertsson, rithöfundur og síðar sendifulltrúi í utanríkisþjónustunni, mikill íhaldsmaður, náfrændi og fóstbróðir Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, var formaður menntamálaráðs þegar bókin kom út. Löngu seinna, háaldraður, sagði Kristján frá því í blaðaviðtali, sem menn hafa líklega ekki veitt athygli sem skyldi, hvernig það bar til að Steinn leitaði eftir stuðningi ráðsins og hvaða viðtökur hann fékk (Ingi Bogi Bogason: „Ekki er gott að skáldin séu skyrtulaus. Samtal við Kristján Albertsson sumarið 1988 um kynni hans af Steini Steinarr,“ Lesbók Morgunblaðsins 20. maí 1989). Hér eru ummæli Kristjáns birt í heild, þótt frásögnin sé alllöng:

Ég hitti Stein fyrst 1934. Á þessum tíma bjó ég á Hótel Borg, í tvo vetur. Þessi fyrsti fundur okkar Steins átti sér aðdraganda. Þannig var að Vilmundur Jónsson, landlæknir, hafði komið að máli við mig og spurt: „Gætuð þér gert eitthvað fyrir hungrað smáskáld á götunni, Stein Steinar, sem hefur nýlega gefið út sína fyrstu bók?“ Með þessum orðum var Vilmundur óbeint að æskja þess að Steinn fengi styrk úr menntamálaráði en ég átti sæti í stjórn þess. Ég sagði við Vilmund: „Hann verður þá að byrja á því að koma bókinni til mín eða annarra í menntamálaráði svo við getum litið í hana.“ Einn daginn stendur fyrir utan Hótel Borg lágvaxinn og magur maður, fátæklega klæddur og að því er mér sýndist blár af kulda. Maður gat hugsað sér að hann stæði í botnlausum skóm í krapinu á götunni, afskaplega vesældarlegur. Hann stansar mig og segist heita Steinn Steinarr. Síðan spyr hann mig umsvifalaust hvort hann gæti fengið skáldastyrk úr menntamálaráði út á fyrstu bókina sína. Hann segir að Vilmundur landlæknir hafi sagt sér frá mér. Steinn rétti mér síðan fyrstu ljóðabók sína, Rauður loginn brann, og segist ætla að sækja um skáldalaun út á hana.

Ég sagði við Stein: „Hafið þér einhverja málsmetandi menn sem gætu sent meðmæli með bókinni eða mælt með þessum styrk þér til handa?" Það gat alltaf haft einhver áhrif. Mér hafði dottið í hug Vilmundur landlæknir án þess að ég vildi sjálfur nefna hann. Þá segir Steinn: „Ég gæti kannski fengið meðmæli frá Einari Olgeirssyni og Brynjólfi Bjarnasyni [leiðtogum Kommúnistaflokksins].“ Ég segi brosandi: „Hvernig er það, gætuð þér ekki fengið meðmæli frá miðstjórn Kommúnistaflokksins?“ Svo brostum við og kvöddumst og ég tók bókina niður á Hótel Borg og leit yfir hana. Mér fannst ekkert sérstakt við hana þá. Hún var sómasamleg. Virkilegur frumleiki Steins var ekki kominn í ljós enn þá. Þetta var sléttur og felldur skáldskapur og því hefði verið verjandi að veita Steini einhverja litla styrkupphæð.

Og nú kemur að athyglisverðasta kaflanum í samtalinu við Kristján Albertsson. Hann segir:

Ég lét bókina ganga á milli manna í menntamálaráði. Í ráðinu voru Árni Pálsson, Ingibjörg H. Bjarnason og ég frá Sjálfstæðisflokknum. Barði Guðmundsson var frá Alþýðuflokknum og Ragnar Ásgeirsson var frá Framsóknarflokknum. Þegar kemur að fundi segir Barði að ekki komi til greina að veita þessu skáldi styrk vegna þess að í bókinni sé verið að yrkja níð um einstaka nafngreinda menn. Um var að ræða glósuna til Ólafs Thors í kvæðinu Veruleiki. Þessu breytti Steinn í seinni útgáfum ljóðabókarinnar. Okkur fannst öllum rétt að hafna beiðni Steins. Niðurstaðan varð því sú að Steinn fékk ekki skáldastyrkinn að þessu sinni.

Hér misminnir Kristjáni reyndar um nöfn fulltrúa í ráðinu á þessum tíma. Nýtt ráð hafði verið kosið á Alþingi stuttu eftir samtal hans og Steins Steinars í desember 1934 og nýr formaður tekið við. Varð Jónas Jónsson frá Hriflu formaður, en auk hans og Kristjáns sátu í ráðinu Pálmi Hannesson rektor, Barði Guðmundsson þjóðskjalavörður og Árni Pálsson prófessor. Ráðið kom saman í fyrsta sinn 28. desember 1934 og samkvæmt fundagerðabók þess, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni, var ákveðið á fundinum að auglýsa styrki til skálda og listamanna til umsóknar eftir áramótin. Ekkert er minnst á að ný bók Steins Steinars hafi verið rædd eða tekið fyrir erindi frá honum.  Á fundi ráðsins nokkrum vikum seinna, 23. febrúar 1935, var farið yfir umsóknir sem borist höfðu og ákveðið að veita tíu skáldum og listamönnum 500 króna styrk hverjum. Ekki kemur fram í fundagerðinni hve mörgum umsóknum var synjað og enn er ekkert minnst á Stein Steinarr. Það er þó næsta víst að það hefur verið á þessum fundi sem Rauður loginn brann gekk á milli manna við fundarborð menntamálaráðs, bókin verið vegin og metin, og umsókn skáldsins hafnað, þótt ekkert sé um það bókað fremur en aðrar styrkbeiðnir sem ekki hlutu náð fyrir augum ráðsins. Vitað er að Steinn fékk synjunarbréf frá menntamálaráði nokkrum dögum seinna, þar sem Halldór Laxness gerði það að umtalsefni í blaðagrein.

Í fundagerðabókum menntamálaráðs er ekki að finna röksemdir fyrir einstökum styrkjum til skálda og listamanna; aðeins niðurstaðan hverju sinni er færð til bókar. Þess vegna er fengur að frásögn Kristjáns Albertssonar í Lesbók Morgunblaðsins. Hún sýnir ótvírætt að það var „níðið“ um Ólaf Thors, formann Sjálfstæðisflokksins, sem þá var jafnframt auðugasti og umsvifamesti atvinnurekandi landsins, sem olli því að Steinn Steinarr fékk ekki náð fyrir augum fulltrúa í ráðinu. Ef hann hefði sleppt línunum þar sem Ólafur er nefndur hefði hann vafalaust fengið skáldastyrk þetta ár.

En hvers eðlis var þetta níð um Ólaf Thors í ljóðinu Veruleiki í fyrstu ljóðabók Steins Steinars Rauður loginn brann?

Svona voru línurnar  sem menntamálaráð hnaut um í Veruleika Steins Steinars, ljóði sem hefst á sakleysislegu orðunum „Regnið streymir hægt, hægt /niður húsþökin“:

Ó, þú vesalings villuráfandi sál.

Vegna hvers leitar þú þess,

sem þú veist að er ekki til?

Hví ertu að efast

um þau einföldu sannindi,

að Ólafur Thórs,

hungraðir verkamenn

og viðbjóðslegt göturykið

sé veruleikinn

eilífur

og óumbreytanlegur?

Hvort rétt sé að tala um „níð“ um Ólaf Thors í þessu ljóði er umdeilanlegt, en það að tengja nafn hans við hungraða verkamenn og viðbjóðslegt göturyk hefur greinilega þótt óviðeigandi. Steinn komst síðar sjálfur að þeirri niðurstöðu að nafn Ólafs ætti ekki heima í ljóðinu. Þegar heildarsafn ljóða hans var gefið út felldi hann nafn Ólafs úr ljóðinu og setti í stað orðið heimskan.

Hví ertu að efast

um þau einföldu sannindi,

að heimskan,

hungraðir verkamenn

og viðbjóðslegt göturykið

sé veruleikinn

eilífur

og óumbreytanlegur?

Margir bókmenntafræðingar hafa fjallað um kveðskap Steins og ævisaga hans hefur verið gefin út, en ég sé ekki að neins staðar sé vikið að þessu máli sem þó er forvitnilegt á margan hátt.

Þess ber að geta að þótt Kristján Albertsson væri eindreginn íhaldsmaður dæmdi hann bækur og listaverk róttækra listamanna ekki út frá skoðunum þeirra. Í listrænum efnum var hann yfirleitt víðsýnn og umburðarlyndur. Hann mat verk jafnan út frá listrænu gildi þeirra eins og sjá má þegar lesnir eru þeir fjölmörgu rit- og listdómar sem eftir hann liggja. Í vinahópi hans voru fjölmargir róttækir listamenn, m.a. Halldór Laxness og þeir Steinn Steinarr áttu eftir að verða miklir mátar. En það að synja Steini um skáldastyrk eingöngu vegna þess að hann notaði nafn Ólafs Thors á óviðeigandi hátt að mati fulltrúa í menntamálaráði er þó óneitanlega ekki í þessum anda.

Next
Next

Tyrkjaránið og varnir Íslands