Óvæntir hlutir í skjalasafni Alþingis

Sýnishorn af þvingungarbúnaði í vörslu Alþingis sem notaður var til að halda erfiðum sjúklingum á Kleppi í skefjum 1930 til 1932 og ef til vill eitthvað lengur. Ljósmynd/Morgunblaðið ©.


Þegar skjalasöfn ber á góma sjá margir fyrir sér gulnuð blöð og velktan pappír. Fleira leynist þó í söfnunum. Frá eldri tíð geyma þau hluti af ýmsu tagi sem af ólíkum ástæðum hafa fylgt afhendingum skjala. Í Þjóðskjalasafninu má þannig finna barnaleikföng, fána, klæðisbúta, loftbyssu og jafnvel lepp innan úr skinnskó frá gamalli sakamálarannsókn. Einkennilegasti hluturinn er líklega í skjalasafni Alþingis. Þar er varðveittur búnaður frá Kleppsspítala frá því á fyrri hluta síðustu aldar. Ekki hefur áður verið greint frá þessum búnaði opinberlega. Þeir fáu sem litið hafa hann augum hafa fram að þessu verið beðnir um að láta vera að ljósmynda hann, yfirleitt með þeim orðum að opinber umfjöllun kunni að vekja óþægilegar tilfinningar eða endurminningar einhverra. Að ósk höfundar þessarar greinar féllst Alþingi á að leyfa ljósmyndun búnaðarins. Innan þingsins er ekki vitneskja um henær búnaðurinn barst þangað eða hvers vegna. Í þessari grein er sagan að bak leidd í ljós.

              Með búnaðinum liggur gamalt minnisblað. Það er stutt, óundirritað og ódagsett. Þar segir um búnaðinn:

Sýnishorn af beltum þeim, sem notuð voru á Nýja Kleppi í tíð L. J. til þess að binda sjúklingana í rúmunum.  Auk þess voru svo rúmin fest með járnum í gólf eða vegg. Enn fremur sýnishorn af hönskum þeim, sem sumir sjúklingar voru látnir hafa, til þess að rífa minna (og geta síður hrifsað til hjúkrunarfólksins).

              Hér er með öðrum orðum um að ræða þvingunarbúnað sem notaður var til að halda erfiðum sjúklingum í skefjum, sjúklingum sem örðugt var að tjónka við og talið var að gætu verið hættulegir sjálfum sér, starfsfólkinu og öðrum og valdið eignaspjöllum á sjúkrahúsinu. Í skýrslum spítalans á fyrri hluta síðustu aldar var talað um „órólega“ sjúklinga í þessu sambandi. Þegar æði rann á þá voru þeir bundnir ofan í rúm sem yfirleitt var fest við vegg eða gólf eða hvort tveggja og gátu þá hvorki hreyft legg né lið. Í augum okkar nútímamanna er þetta ákaflega ómannúðleg meðhöndlun og eðlilega vakna spurningar um hvernig á þessu stóð og hvernig þetta var réttlætt, hve víðtæk notkun þessa búnaðar var og hve lengi hann var í notkun.

              Þrátt fyrir leit með aðstoð starfsmanna Alþingis hafa ekki fundist gögn sem skýra hvenær nákvæmlega búnaðurinn frá Kleppi barst þinginu eða af hvaða tilefni. Bendir það til þess að hann hafi verið afhentur á óformlegan hátt, t.d. fyrir milligöngu einhvers þingmanns, og tengist umræðum um málefni spítalans í þingsölum eða þingnefnd. Hvergi er þó vísað til hans í ræðum eða skjölum í Alþingistíðindum að séð verður. Höfundi þessarar greinar hefur þó tekist að rekja söguna að baki í stórum dráttum, m.a. með gögnum úr Þjóðskjalasafni sem ekki hafa áður verið notuð, og verður hér reynt að varpa ljósi á málið í heild.

„Nýi Kleppur“ og „L. J.“

Byrjum á því að skoða minnisblaðið fyrrnefnda. Hver getur verið höfundur þess? Hvers vegna er þar talað um „Nýja Klepp“? Og hvað er á bak við skammstöfunina „L. J.“?

              Athugun leiðir í ljós að rithöndin á blaðinu er Helga Tómassonar (1896-1958) sem var yfirlæknir á Kleppsspítala frá 1929 til 1930 og aftur frá 1932 til dánardags. Það er því að líkindum hann sem afhent hefur þinginu búnaðinn. Kleppi var skipt upp í tvær sjálfstæðar deildir í tveimur aðskildum byggingum frá vordögum 1929 og fram til ársloka 1939; voru deildirnar og byggingarnar jafnan nefndar Gamli Kleppur annars vegar og Nýi Kleppur hins vegar. Hinn gamli var sá hluti spítalans sem starfræktur hafði verið frá stofnun 1907 og var undir stjórn Þórðar Sveinssonar yfirlæknis. Nafnið Nýi Kleppur var aftur á móti haft um stærri byggingu  á lóð spítalans sem tekin var í notkun í mars 1929. Þar var Helgi yfirlæknir. Hann hafði lokið doktorsprófi í geðlækningum í Danmörku nokkru fyrr. Höfðu ríkisstjórnin og landlæknir sóst eftir starfskröftum hans, enda enginn Íslendingur þá jafn vel menntaður á þessu sviði og hann. Helgi mun hafa haft lítið álit á lækningum Þórðar Sveinssonar og vildi ekki á nokkurn hátt lúta stjórn hans og boðvaldi. Lækningaaðferðir Þórðar voru umdeildar og höfðu sætt harðri opinberri gagnrýni, m.a. sagðar gagnslitlar og ómannúðlegar. Má lesa um þetta í riti Óttars Guðmundssonar læknis Kleppur í 100 ár (2007). Aftur á móti var Þórður vinsæll borgari og vel metinn meðal almennings og áhrifamanna og treystu hvorki ríkisstjórnin né landlæknir sér til að hrófla við stöðu hans. Tvískipting Kleppsspítala varð leiðin út úr þessari klípu.

Lárus Jónsson var yfirlæknir á Nýja Kleppi frá maí 1930 og fram í byrjun desember 1932. Ljósm. Læknatal.

               Þá eru það stafirnir „L. J.“ á minnisblaðinu. Hver á þá? Þetta eru nafnstafir Lárusar Jónssonar læknis (1896-1983) sem gegndi störfum yfirlæknis á Nýja Kleppi frá því vorið 1930 og fram í byrjun desember 1932. Er þá komið að þætti sem flækir þessa sögu nokkuð en nauðsynlegur er til skýringar áður en lengra er haldið.

F.v. Nýi spítalinn á Kleppi, tekinn í notkun 1929, Gamli Kleppur, tekinn í notkun 1907, og loks yfirlæknisbústaðurinn gamli.

„Stóra bomban“

Helgi Tómasson hafði ekki verið yfirlæknir á Nýja Kleppi nema í tæpt ár þegar til mikilla tíðinda dró í samskiptum hans við ráðherrann sem fór með málefni sjúkrahúsa í ríkisstjórninni, dómsmálaráðherrann Jónas Jónsson frá Hriflu, helsta leiðtoga Framsóknarflokksins. Hér er átt við „Stóru bombuna“ svonefndu, mál sem alþekkt er í Íslandssögu síðustu aldar. Allt frá því Jónas hóf þátttöku í stjórnmálum hafði gustað mjög um hann og jókst það til muna er hann varð ráðherra 1927. Mun óhætt að segja að hann hafi ýmist verið dáður eða hataður fyrir framgöngu sína í stjórnmálum og embætti. Ýmsir, þar á meðal hópur lækna sem deilt höfðu harkalega við hann um embættaskipanir, töldu að ofsi Jónasar væri slíkur að hann gæti ekki talist með réttu ráði. Helgi Tómasson heimsótti ráðherrann í febrúar 1930 og mun hafa sagt að hann teldi „ýmislegt abnormalt við framkomu“ hans, svo vitnað sé í frásögn Jónasar sjálfs af fundi þeirra. „Eruð þér að bjóða mér á Klepp?“ kveðst Jónas hafa svarað. („Stóra bomban,“ Tíminn 26. febrúar 1930). Í kjölfar þessarar heimsóknar skall á pólitískt fárviðri og vék Jónas Helga frá embætti stuttu síðar, í lok apríl 1930, og sakaði hann um að ganga erinda pólitískra andstæðinga sinna. Fól Jónas stuttu síðar fyrrnefndum Lárusi Jónssyni að taka við yfirlæknisstöðunni og kom hann til starfa um miðjan maí. Lárus hafði um um tíma starfað á geðsjúkrahúsum í Danmörku og hafði því nokkra reynslu á þessu sviði þótt ekki væri hann sérmenntaður geðlæknir.

Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi 1929-1930 og frá 1932 til 1953.

„Stóra bomban“ verður ekki rakin hér frekar, en ef tala má um „dóm sögunnar“ í þessu samhengi verður ekki annað sagt að Helga Tómassyni hafi orðið alvarlega á í messunni í samskiptunum við Jónas frá Hriflu, þótt ekki sé nema frá því sjónarmiði sem Vilmundur Jónsson þáverandi landlæknir hélt fram, að enginn læknir getur leyft sér að kveða upp dóm um heilsufar manns sem hann hefur ekki haft til meðferðar. Þessi afdrifaríka yfirsjón Helga breytir því þó ekki að hann er almennt talinn fremstur íslenskra geðlækna á fyrri hluta síðustu aldar og tímamótamaður sem frumkvöðull nútímalegra geðlækninga hér á landi. Ekki leikur vafi á því að Jónas frá Hriflu braut stundum sem ráðherra gegn góðri stjórnsýslu með gerræðislegum vinnubrögðum. En hann vann einnig ýmis umbótaverk sem mörkuðu tímamót en storkuðu rótgrónum valdahópum þjóðfélagsins. Helgi Tómasson fékk starf sitt á ný eftir stjórnarskipti rúmum tveimur árum eftir brottvikninguna. Það var snemma í desember 1932, þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Ólafur Thors, vék Lárusi úr embætti fyrir óreglu (drykkjuskap) og fyrirskipaði rannsókn á starfi hans á spítalanum, aðbúnaði sjúklinga og ástandi öllu. Var Garðari Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni falin rannsóknin sem hófst undir loks árs 1932 og stóð fram í miðjan mars 1933 þegar henni var frestað og lauk aldrei. Lárus höfðaði mál gegn ríkinu og krafðist fullra launa út skipunartíma sinn, en Hæstiréttur sýknaði stjórnvöld  á grundvelli þess að hann hefði gerst brotlegur í starfi með óreglu sinni og því rétt að víkja honum frá.

Meðhöndlun geðsjúkra

Þá víkur sögunni aftur að þvingunarbúnaðinum. Fyrr á tíð var meðhöndlun geðsjúklinga með allt öðrum hætti en tíðkast nú á dögum enda var þekkingu á eðli þessara sjúkdóma mjög ábótavant. Geðsjúklingar nutu þar af leiðandi ekki mannréttinda á við annað fólk og allt fram á 20. öld voru hinir erfiðustu í þeirra hópi hér á landi beittir valdi, aðskildir frá samfélaginu og lokaðir inni í úthúsum á sveitabæjum eða í herbergjum á heimilum fólks í þéttbýli. Sjúkrahúsið á Kleppi var þegar í upphafi (1907) þannig úr garði gert að hægt var að einangra sjúklinga sem búast mátti við að tækju bræðisköst. Voru í byggingunni fjórir rammbyggðir klefar með litlum gægjugluggum eins og í fangelsi. Þar var hægt að loka sjúklinga inni án þess að þeir sköðuðu sig eða aðra. Frá upphafi eða mjög snemma virðist spítalinn einnig hafa átt og notað ýmsan þvingunarbúnað á sjúklinga, einkum spennitreyjur, belti og ólar og leðurbelgvettlinga sem þeir gátu ekki losað af sér.

               „Fangaklefar“ og þvingunarbúnaður (fjölbreyttari en hér á landi) höfðu einnig tíðkast á  geðsjúkrahúsum í nágrannalöndunum. En þegar leið á 19. öldina og komið var fram á hina 20. urðu smám saman miklar breytingar á viðhorfum lækna og hjúkrunarfólks til meðhöndlunar geðsjúkdóma. Er í fræðiritum um sögu geðlæknisfræðinnar talað um „non-restraint“ hreyfingu í þessum efnum, þ.e. viðleitni til að lágmarka eða hætta alveg notkun þvingunartækja af mannúðarástæðum. Þegar Helgi Tómasson kom til starfa á Kleppi var þetta orðin ríkjandi stefna í geðlækningum í Evrópu, þótt gömlu úrræðin væru sums staðar enn notuð. Í stað þess að nota þvingunarbúnað voru gefin róandi lyf og starfsfólki fjölgað svo auðveldar væri að hemja sjúklinga meðan verstu köstin gengu yfir. Nútíma geðlyf komu ekki fram fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar og síðar.

Víðtæk notkun

Helgi Tómasson virðist alveg frá upphafi hafa verið andvigur notkun þvingunarbúnaðar og aðeins viljað heimila notkun hans í undantekningartilvikum.  Samkvæmt vitnisburði hans við rannsóknina á starfsháttum Lárusar Jónssonar snemma árs 1933 voru engin þvingunartæki til staðar á Nýja Kleppi meðan hann var þar læknir 1929 til 1930. „Þau eru að mínum dómi óþörf þegar nægilegt hjúkrunarfólk er fyrir hendi sem kann að umgangast sjúklingana óbundna,“ sagði hann. (ÞÍ. Stjr. Ísl. I., 0000-010 B/424. Bréfasafn 1932-1936). En þegar Helgi sneri aftur til starfa snemma í desember 1932 höfðu orðið umskipti á þessu sviði. Í notkun voru þá bæði leðurbelti og leðurbelgvettlingar og líklega einnig spennitreyjur.  „Voru erfiðustu sjúklingar bundnir í leðurbelti sem aftur sumum er fest með keðjum („nautaböndum“) í rúmin. Fimm rúm voru fest í gólfið eða vegginn, svo að sjúklingarnir gætu ekki  hreyft þau” sagði hann.

              Fram kom í máli Helga að fjórar deildir væru á Nýja spítalanum á Kleppi, tvær fyrir karla og aðrar tvær fyrir konur, þar af ein fyrir „órólega karla“ og önnur fyrir „órólegar konur.“ Þegar hann tók við spítalanum að nýju hafi 18 sjúklingar verið á órólegu karladeildinni,  6 þeirra að staðaldri með belti, en 2 stundum. Á órólegu kvennadeildinni hafi einnig verið 18 sjúklingar, 9 í belti, þar af 6 að staðaldri. Að auki hafi ein kona á rólegu deilinni verið í belti að staðaldri. Þá hafi 2 „hálfórólegar konur“ og „einn hálfórólegur karlmaður“ verið með leðurlúffur eða belgvettlinga sem læstir voru með lás um úlnliðinn svo sjúklingarnir gætu ekki náð þeim af sér. Með öðrum orðum voru 13 sjúklingar á Nýja Kleppi alla daga bundnir niður í rúm sín og fimm sjúklingar til viðbótar bundnir öðru hverju. Óhætt er því að segja að notkun þvingunarbúnaðar hafi verið all víðtæk á spítalanum á þessum tíma.

              Um þetta sagði Helgi í skýrslu sinni við réttarrannsóknina 1933: „Áður en hið svokallaða „non-restraint system“ ruddi sér til rúms í meðferð geðveikra voru notuð alls konar mekanísk tæki til að hindra sjúklingana í því að fara sjálfum sér og öðrum að voða eða að skemma hluti í sífellu. Þó að non-restraint system hafi alls staðar verið tekið upp á seinni áratugum, þá eimir þó enn eftir af því í sumum löndum, t.d. eru belti notuð á sumum spítölum í Danmörku. Það sem talið er réttlæta þau er aðallega að komast af með færra starfsfólk, minna þarf að nota af róandi meðölum og sjúklingarnir eyðileggja að sögn minna, m.ö.o. að reksturskostnaðurinn  á að geta minnkað mikið. Ekki er mér þó kunnugt um neinn þann spítala sem þetta hafi komið í ljós hjá.“

              Helgi bætir svo við: „Læknisfræðilega er aftur á móti margt sem talið er á móti mekanískri þvingun á sjúklingunum, svo margt að hún er talin óviðeigandi í flestum löndum og í öllum sennilega nema undir alveg sérstökum kringumstæðum.“

              Af ofansögðu er ljóst að Lárus Jónsson læknir tók ákvörðun um að nota þvingunarbúnað í viðureign við sjúklinga Nýja Kleppi eins og vísað er til í minnisblaðinu sem nefnt er í upphafi greinarinnar. Hefur hann af einhverjum ástæðum ekki treyst sér til að hafa annan hátt á. Engin gögn finnast um það hvaðan búnaðurinn kom eða hvað greitt var fyrir hann. Hans er ekki getið í skrá yfir tæki og búnað þegar Lárus hætti störfum og hvergi í reikningum spítalans. Vel má vera – og raunar ekki ólíklegt - að búnaðurinn hafi verið fenginn frá Gamla Kleppi, en annars er ekkert vitað um samskipti eða samstarf Lárusar við Þórð Sveinsson.

Notkun hætt

Eftir að Helgi tók við spítalanum að nýju snemma í desember 1932 hélt hann áfram þeim sið að gefa út opinberar skýrslur um starfsemina. Í skýrslu fyrir starfsárið 1933 sem kom út sumarið 1934  (bls. 27) segir hann að hætt hafi „smám saman verið við að nota belti og bönd, striga- og leðurhanska, treyjur og önnur þvingunartæki á sjúklingana, án þess að auka hlutfallið á milli starfsfólksfjölda og sjúklingafjölda, svo teljandi sé.” Búnaðurinn var þó enn í notkun sumarið 1934 því í grein í Læknablaðinu undir lok þess árs (10.-12. tbl., bls. 203-207) þar sem Helgi fjallar um lyfjameðferð sína á sjúklingum með geðklofa er nefndur ungur karlmaður sem hafi verið mörg ár á spítalanum og  taki „hin hroðalegustu æðisköst.“ Hafi hann „frá gamalli tíð verið í belti í rúminu“ og er enn þegar greinin er birt.

              Ekki er vitað um neina greinargerð frá hendi Helga um það hvenær hætt var alveg  að nota þvingunarbúnaðinn á spítalanum. Sonur hans, Tómas Helgason, sem síðar varð yfirlæknir á Kleppi, sagði hins vegar í grein í fylgiriti Læknablaðsins  1983 (bls. 5) í tilefni af 75 ára afmæli Klepps að á spítalanum „hafi ekki verið til rúmbelti, spennitreyjur eða önnur þvingunartæki síðan í árslok 1932.“ Þetta ítrekaði hann í blaðaviðtali um fimmtán árum seinna og sagði:

              Eitt af því sem er mjög merkilegt við rekstur geðdeilda á Íslandi er að hér hafa hvorki verið notuð belti, spennitreyjur eða aðrar líkamlegar þvinganir af slíku tagi síðan 1932. Þegar leikritið Marat-Sade, sem gerist á geðsjúkrahúsi, var fært upp í Þjóðleikhúsinu [árið 1967] kom leikstjórinn til mín og spurði hvort ekki væri til svona búnaður hér eða á safni, hvort við hefðum ekki haldið einhverju til haga en svo reyndist ekki vera. Faðir minn var mjög ákveðinn og vissi hvað hann vildi. Hann fór sjálfur um spítalann í árslok 1932 og safnaði saman öllum þessum treyjum og ólum, fór með þetta niður í geymslu og stakk því sjálfur í miðstöðina. Hann brenndi allt til að vera viss um að það yrði aldrei notað aftur. Síðan hefur slíkur búnaður aldrei verið notaður hér og hingað koma menn frá útlöndum til að sjá hvernig við förum að þessu. En það eru ekki fleiri dæmi um alvarleg slys eða aðrar uppákomur hjá okkur en annars staðar þrátt fyrir þetta. („Umskipti í geðlækningum á 90 árum. (Morgunblaðið 25. maí 1997, bls. 20).

              Þessi ummæli standast ekki alveg miðað við það sem fram hefur komið hér að framan. Ekki er þó útilokað að Helgi hafi fargað megninu af búnaðinum þegar í árslok 1932, en eitthvað lengur, a.m.k. fram eftir árinu 1934, hefur slíkur búnaður verið á Nýja Kleppi og notaður í undantekningartilvikum.  Hins vegar er ekki er annað að sjá en að á Gamla Kleppi hafi áfram verið haldið notkun þvingunarbúnaðar allt þar til Þórður Sveinsson lét af störfum í árslok 1939. Vitnisburður um sjúkling þar bundinn í rúm sitt birtist t.d. í Vísi haustið 1936. („Dagur á Kleppi,“  20. september 1936). Vel má vera að Helgi hafi fargað þvingunarbúnaðinum á Gamla Kleppi strax þegar hann tók þar við lyklavöldum á gamlaársdag 1939. Og kannski var ekki fyrr en þá sem förgun alls búnaðarins á báðum spítulunum átti sér stað.

Hefnd Jónasar frá Hriflu

Að lokum er það spurningin hvenær og hvers vegna þvingunarbúnaður inn frá Kleppi barst Alþingi. Mestar líkur eru á því að það hafi verið í nóvember eða desember 1934 þegar fjárlög ársins 1935 voru til umfjöllunar og blaðaskrif urðu um þvingunarbúnað á Kleppi.

           Helgi Tómasson hafði lagt til að að Nýi Kleppur fengi 4.500 kr. fjárveitingu til lyfjakaupa. Þetta var liður í stefnu hans að nota lyf í stað þvingunarbúnaðar þegar erfiðir sjúklingar áttu í hlut. Jónas Jónsson frá Hriflu var þá orðinn formaður fjárveitinganefndar. Því fór fjarri að væringarnar við Helga Tómasson væru honum gleymdar. Jónas lagði til að þessi liður yrði lækkaður í 1.500 krónur og fékk því framgengt. Orðaskipti urðu um þetta í þingsölum og einnig blaðaskrif og var niðurskurðurinn harðlega gagnrýndur í Morgunblaðinu og Vísi.  Helgi hélt þó sínu striki og varð lyfjareikningur spítalans mun hærri en fjárveitingar gerðu ráð fyrir. Fékk spítalinn  útgjöldin jöfnuð í fjáraukalögum fyrir árið 1935. Þá var lyfjaliðurinn einnig hækkaður í samræmi við óskir Helga í fjárlögum 1936. Atlaga Jónasar frá Hriflu bar því ekki árangur.

„Pyntingarstaður“ og „fangahús“

Þótt þvingunarbúnaðurinn á Kleppi væri ekki ræddur í þingsölum var um hann fjallað í blöðunum. Vísir sagði 18. nóvember 1934 (og hafði þá fengið fengið upplýsingar úr skýrslu Garðars Þorsteinssonar): „Í tíð Lárusar Jónssonar voru skv. opinberum réttarskýrslum margir sjúklingar festir við rúm sín með beltum og keðjum og öðrum þvingunartækjum beitt. Þarf vitanlega færra starfsfólk, er slíkum miðaldaaðförum er beitt, en nú, þegar öll slík tæki eru afnumin.“  

              Morgunblaðið tók málið einnig upp og kvað fastar að orði í gagnrýni sinni á niðurskurðinn en þingmenn. Sagði blaðið  2. desember 1934 að Jónas frá Hriflu virtist vilja halda í þann sið „skjólstæðings síns Lárusar Jónssonar“ að „binda sjúklinga með ólum og reipum.“ Eftir að Helgi Tómasson hefði tekið við spítalanum að nýju hefði að sjálfsögðu verið hætt „að reka spítalann sem pyntingarstað og fangahús og lyf fremur notuð en ólareipi.“  

              Nýja dagblaðið, málgagn Framsóknarflokksins, leit málið öðrum augum. Í forsíðugrein 21. nóvember 1934 var gert lítið úr þvingunarbúnaðinum á spítalanum. Hér væri um að ræða „sjúkrabelti“ sem almennt væru notuð á geðveikrahælum og flestir læknar aðrir en Helgi Tómasson teldu sjálfsagt að nota. Beltin væru sjúklingunum „langtum hættuminni en deyfandi lyf og sprautur.“

              Sennilega var það vegna þessara blaðaskrifa að þvingunarbúnaðurinn með minnisblði Helga Tómassonar barst Alþingi. Hann hefur síðan dagað uppi í húsakynnum þingsins og verið þar í um 90 ár. Eðlilegast virðist að búnaðurinn verði varðveittur til frambúðar á Lækningaminjasafni Íslands sem er í vörslu Þjóðminjasafnsins, en það er Alþingis að taka afstöðu til þess.

 Þakkir

Forsætisnefnd Alþingis er þakkað fyrir að heimila ljósmyndun þvingunarbúnaðarins og Önnu Einarsdóttur skjala- og gæðastjóra og Vigdísi Jónsdóttur fyrrum skjalaverði þingsins fyrir greiðvikni við leit að gögnum. Enn fremur er Stefáni Pálssyni sagnfræðingi þakkað, en það var fyrir ábendingu hans að höfundur hóf að kanna þetta mál.

Next
Next

Ástúðleg orð á milli ungra manna