Malandi kjaftakvarnir og prúðbúnar dömur
Kaffihúsið í Uppsölum við Aðalstræti var vinsæll samkomustaður á fyrri hluta 20. aldar. Þangað sótti ekki síst ungt menntafólk, skáld og skólapiltar. Ljósm. Peter Michael Grosz / Þjms./Sarpur.
Hér er skemmtileg úttekt á kaffihúsunum í Reykjavík fyrir rúmum hundrað árum. Birtist í Morgunblaðinu 23. september 1921. Greinin er ómerkt en ekki er ósennilegt að Þorsteinn Gíslason ritstjóri blaðsins haldi á pennanum, þótt það verði ekki fullyrt.
Kaffihúsin eru hér nú 4 síðan „salig“ Fjallkonan datt úr sögunni. Var það merkilegt kaffihús á sinni tíð og mikið umtalað, og þótti greiðvikið og hjálpsamt við útlendinga og ferðamenn, sem gerðu kröfu til annars og meira, en vanalega er til boða á gistihúsum. En nú blómstra hin 4 með mikilli dýrð og vegsemd. Einkum hefir verið fjölment í „kjallaranum“ í „Nýja Bíó“. Þar eru ljós allan daginn. Og Reykvíkingar elska ljósið. En síðan Iðnó kom til sögunnar, hafa menn einnig leitað þangað, og er þar jafnaðarlega fullt hús eftir kl. 10 að kvöldi. Má þar sjá sólskins-andlit ungra meyja, eldsnör augnatillit leitandi ungmenna, rosknar og ráðsettar frúr og uppgjafa embættismenn. Allar stéttir.
En á Uppsölum er háværast. Þangað safnast allur skólalýður þessa bæjar, uppblásinn og útþaninn af mentunarvindi. Og þar fylkja jafnaðarmenn og kommúnistar her sinum til blóðugra áhlaupa á auðvald þessa vesalings bæjar. Þar halda þeir funandi hvatningarræður og umsteypa þessu þjóðfélagi á vetfangi. Þar er margur mikill í munninum. Þar er bannmálið sótt og varið. Og þar eru „kleinur“, sem allir kaupa.
Á þessum kaffihúsum er hljóðfærasláttur: bumbur barðar, básúnur þeyttar, organ troðin, simfon slegin og saltarar sungnir. Leitar þangað margur sér til hugarhægðar og harmaléttis og fær frið í sálu sína.
En dýrt þykir flest á þessum gisti- og matsöluhúsum. Segja útlendir ferðamenn, að hvergi i Evrópu sé dýrara að lifa en hér. Og þeir skifta auðvitað mest við þessar verslanir.
En kaffihúsin eru skuggsjá þessa bæjarlífs. Sitji maður þar eina kvöldstund, þá má fá útsjón yfir augljósustu drættina í svip bæjarins: skemtanafýsnina, andvaraleysið, mælgina, óhófið, ástleitnina. Því þarna situr að jafnaði sá hluti bæjarbúa, sem sameinar þetta alt. Og þetta er unga kynslóðin.
En engin regla er án undantekningar. Þarna sitja líka saklaus sveitabörn, feimin og óframfærin, óreynd á öllum refilstigum bæjarlifsins, hljóð og hugsandi, og horfa stórum augum á allar þessar malandi kjaftakvarnir og prúðbúnu „parfumerudu“ dömur, sem aldrei segja eitt orð, ekki gera nokkra hreyfingu, ekki renna svo mjólkurhvítum augunum að þær reyni ekki að gera það, sem „penast“, sem áhrifamest. Og kjarngóða, heilbrigða sveitamenningin íslenska togast á um yfirráðin i sál þeirra við glysmenningu og yfirborðs-andríki höfuðstaðarins.
Kaffihúsunum er vanalegast lokað kl. 11 og 11 1/2. Þá streymir kaffihúsalýðurinn út, hálfblindaður af tóbaksreyk og ör af glampandi augnatillitum og hálfkveðnum svörum. Sumir ná í rúmið innan skams, sumir ekki fyr en seint og síðar meir eftir langt æfintýraríkt reik um hljóðar og mannlausar götur bæjarins og sumir aldrei.