Ástúðleg orð á milli ungra manna
Ferlaufasmárinn - fjórir æskuvinir frá Ólafsvík. Myndin er tekin í Reykjavík 1919. F.v. Jóhann Jónsson skáld, sr. Friðrik A. Friðriksson, sr. Magnús Guðmundsson og Kristinn Guðbrandsson (Chris brandson) raforkustjóri í Kaliforníu.
Hér koma glefsur úr tveimur sendibréfum ungs manns frá 1912 og 1914, mjög einlægum, tilfinningaríkum og fallegum. Bréfritari er 16 ára þegar fyrra bréfið er skrifað, jafngamall viðtakanda sem var æskuvinur hans. Ég hef ekki samræmt stafsetningu eða rithátt til nútímahorfs, enda er meiri sjarmi yfir orðunum eins og þau voru sett á blað. Bréfin eru varðveitt á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík.
Bréfritari er Kristinn Guðbrandsson (1896-1951), síðar „Chief Engineer“ og „Manager“ Kerchoff-raforkuversins við Auberry í Kaliforníu, notaði þá nafnið Chris Brandson. Viðtakandi Friðrik A. Friðriksson (1896-1980), síðar prestur í Íslendingabyggðum vestanhafs og á Húsavík. Þeir voru æskuvinir frá Ólafsvík. Á unglingsaldri áttu þeir ásamt tvemur öðrum jafnöldrum í bænum talsvert samneyti, ekki síst meðan sóknarpresturinn sr. Guðmundur Einarsson bjó þá undir nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Hinir tveir voru Jóhann Jónsson, síðar skáld (1896-1932) og Magnús Guðmundsson, síðar sóknarprestur í Ólafsvík (1896-1980). Kölluðu þeir sig ferlaufasmárann og létu mynda sig saman á ljósmyndastofu Reykjavík 1919. Það var rétt áður en Kristinn hélt af landi brott vestur um haf – án þess að ganga í Menntaskólann. Vestanhafs lærði hann raffræði, fræði sem höfðu áttu hug hans allan frá barnæsku. Vestanhafs kynntist hann og kvæntist íslenskri konu, Ólöfu Sigurðardóttur (sem var dóttir Ólafs Sigurðssonar og Ólafíu Ívarsdóttur), en ekki liggur fyrir hvort þau hafi eignast afkomendur. Ljósmyndin af þeim félögum birtist fyrst fyrir nokkrum árum í bókinni Undarlegt er líf mitt! (1992) sem geymir sendibréf Jóhanns til Friðriks frá árunum 1912 til 1925.
Séra Friðrik A. Friðriksson varð líka fjölskyldumaður, kvæntist danskri konu og eignuðust þau fjögur börn, þrjár dætur og einn son. Svarbréf hans til Kristins hafa ekki varðveist, svo kunnugt sé, og því ekki til samanburðar, en önnur gögn benda ekki til þess að þau hafi verið á sama tilfinningagrundvelli þrátt fyrir mikinn vinskap alla tíð. „Óefað sú hreinasta sál, sem ég hef kynnst,“ skrifaði hann um bréfritara á gamals aldri. Þeir stóðu í bréfasambandi í áratugi. Þegar æskuárin voru að baki breyttust skrif bréfritara og tilfinningasamur innileikinn hvarf, en vináttan var söm og jöfn.
Kannski má hafa það sem hér birtist til marks um „rómantíska vináttu“ (a.m.k. af hálfu bréfritara), svo notað sé hugtak úr smiðju bandarísks fræðimanns, E. Anthony Rotundo, sem fyrir nokkrum árum gerði fræga rannsókn á sendibréfum og dagbókum hóps ungra Bandaríkjamanna á 19. öld, og hélt því fram að orðfæri þeirra – og ungra karla almennt mjög oft - hefði verið einlægara og hjartanlegra en siðar varð þegar samkynhneigð karla fór að birtast í opinberri umfjöllun og blaðaskrifum sem (hneykslanlegur) lífsstíll.
Úr bréfi 1912.
Ástkæri vinur! ... Ó jeg vildi óska elsku minn ef þjer væri þungt innanbrjósts að jeg gæti eitthvað ljett um hjartarætur þínar, þú ættir margfalt skilið það af mjer. ... Jeg finn aldrei eins til þess hvað jeg þrái samvist þína, eins og þegar þú ert farinn burt, nú er öldin önnur en í fyrra þegar jeg var í tíma [með viðtakanda bréfsins], nú er einginn sem jeg get fullkomlega úthelt hjarta mínu fyrir. Þú ert sá eini.
... Jeg vona að við fáum að finna hvor annan áður en veturinn er liðinn , og tala hvor við annan eins og okkur er lagið, því þó jeg sje ekki skáld eða háfleigur í tungunni, þá veit jeg að þú virðir ástarþel mitt til þíns síðasta.
... Svo enda jeg þetta brjef í þeirri föstu von að við fáum að vinna saman fyrir það fyrsta í vetur, og þá að sumri ef ástæður leifa. Helst vildi jeg auðvitað geta verið hjá þjer alla æfi.
Úr bréfi 1914.
Jeg þakka þjer innilega fyrir ástkæra brjefið þitt, sem fjekk mjer mikils. Það alveg hreif mig og fylti brjóst mitt heitri þrá um að meiga faðma þig að mjer. Oftar en einusinni hætti jeg að lesa brjefið til þess að að hugsa um þig, og gleimdi þó ótrúlegt megi virðast að lesa brjefið nema í slitróttum skorpum, alveg eins og jeg hefði verið unnusta þín, jeg fjekk indælan hjartslátt alveg eins og ástfanginn maður, og það er þessi hreifing á blóðinu, sem jeg hlakka svo til með hverjum póst.
Innileiki einkennir einnig mörg bréfa Jóhanns Jónssonar til sr. Friðriks. Virðist sem sterk tilfinningaleg bönd hafi verið á milli þeirra enda deildu þeir svipaðri lífreynslu af fátækt og allsleysi sjóþorpsins á Snæfellsnesi. Jóhann var líka stundum mjög tilfinningaríkur í bréfum sínum þegar hann vék að ýmsum öðrum vinum sínum. Í einu bréfa sinna talar Jóhann um að hann „elski Halldór” [Laxness]. Og þegar hann fréttir andlát vinar frá Leipzig, Jóns Ásgeirssonar píanóleikara, kveðst hann hafa unnað honum hugástum. Í drögum að ljóðabók Jóhanns sést að hann hefur hugsað sér að tileinka Jóni nokkur óort kvæði.