Skólarnir kveðja Halldór Laxness
Forsíða Morgunblaðsins 9. október 2025. Blaðið er í aldreifingu þennan dag og því mun fréttin um Halldór Laxness í skólum landsins kannski vekja meiri athygli en ella.
Morgunblaðið greinir frá því með ‘stríðsletri’ á forsíðu í dag að framhaldsskólar landsins séu nánast hættir að láta nemendur lesa bækur Halldórs Laxness. Okkur lesendum er brugðið, enda er tónninn í umfjöllun blaðsins að þetta séu ekki góðar fréttir – eðlilega og tek ég undir það. Rifjast upp sambærilegt mál: fyrir um 40 árum vakti mikla athygli frétt sem ég skrifaði í blaðið um að Íslandssögukennsla í grunnskólum væri að mestu hætt og (að um margt einkennileg) samfélagsfræði tekin við. Margir urðu mjög reiðir og málið var rætt fram og aftur á Alþingi, en ekkert gerðist og staðan er enn að mestu óbreytt, nemendur í grunnskólum eru hættir að læra Íslandssögu. Ætli sama verði ekki uppi á teningnum hvað Laxness varðar í framhaldsskólunum?
Tímarnir breytast og mennirnir með. Hér í gamla daga þegar amma var ung hefði Mogginn sennilega fagnað því að hætt væri að kenna Laxness í skólum! Margt í bókum hans þótti viðsjárvert í þá daga. En reyndar var ekki byrjað að lesa Laxness í skólum á þeim árum. Sambúð blaðsins og skáldsins gerbreyttist hins vegar til hins betra þegar Matthías Johannessen hafði fest sig í sessi sem ritstjóri og hóf að láta til sína taka á menningarsviðinu.
Þegar ég var í menntaskóla í byrjun áttunda áratugarins voru nokkrir af fremstu íslenskufræðingum landsins í kennarahópnum. Við lásum Brekkukotsannál Laxness, Njálu og Laxdælu og einnig Bréf til Láru eftir Þórberg og nokkrar smásögur Jóns Trausta. (Svo lásum við mörg þessa höfunda og marga fleiri heima, óháð náminu). Mér er óhætt að segja að þessi lestur og kennsla átti þátt í að móta mig til framtíðar. Gaman er að heyra að minn gamli skóli, MH, - og þrír aðrir af um 30 framhaldsskólum - þrjóskast enn við að láta nemendur í íslensku lesa Sjálfstætt fólk Laxness.
Fram kemur í Morgunblaðinu að rekja megi örlög Laxness í skólunum til versnandi lesskilnings nemenda (en kennara?), breytts orðaforða og tíðarandans. Vandamálið byrjar með öðrum orðum ekki í framhaldsskólunum, heldur á það sér rætur í samtímamenningu okkar, í uppeldi barna á heimilinum og kennslu í grunnskólum landsins.
Hvort frétt Morgunblaðsins eigi eftir að hreyfa við kennurum og skólayfirvöldum veit ég ekki. Er satt að segja ekki bjartsýnn á það. En það sem mér finnst vanta í umfjöllun Morgunblaðsins er hvaða bókmenntir eru í staðinn lesnar í skólunum, því eitthvað hlýtur að vera á boðstólum. Staðan hvað Laxness varðar er dapurleg, en það er þó ekki heimsendir að hann sé að mestu úti í kuldanum. Aðalatriðið er að nemendum bjóðist vandað lesefni skrifað á fjörmiklu og vönduðu íslensku máli – og sem hreyfir við þeim og vekur spurningar um lífið og tilveruna.