„Óþekki drengurinn“ hann Drumbur

„Óþekki drengurinn“

Drumbur einmanalegur úti í horni í Friðriksstofu í húsakynnum KFUM við Holtaveg. Myndina tók ég í einni heimsókninni þangað.

Á vinnustofu listamannsins

Séra Friðrik situr fyrir á vinnustofu Sigurjóns Ólafssonar vorið 1952 þegar listamaðurinn vann að gerð styttunnar af Friðriki og drengnum. Þarna er Drumbur við hlið Friðriks. Myndin er úr bókinni um ævi og list Sigurjóns.

Í einu horninu í Friðriksstofu, minningarstofunni um séra Friðrik Friðriksson í húsakynnum KFUM við Holtaveg, er útskorin tréstytta af allsberum smádreng. Þegar ég kom þangað fyrst haustið 2017 veitti ég henni athygli, enda mjög sérstæð, en vissi ekkert um sögu hennar. Í Friðriksstofu eru auk bóka og skjala ýmsir munir úr fórum Friðriks frá fyrri tíð. Seinna komst ég að því að séra Friðrik hélt mjög upp á þessa styttu, nefndi hana Drumb og hafði árum saman í bókaherbergi sínu og svefnstofu í húsi KFUM við Amtmannastig. Þegar Sigurjón Ólafsson myndhöggvari gerði á sínum tíma minnisvarðann um séra Friðrik og drenginn, sem stendur við Lækjargötu, notaði hann tréstyttuna sem fyrirmynd að drengnum. Þáverandi kona Sigurjóns, Tove Ólafsson, er höfundur verksins.

Í kjölfar bókar minnar um séra Friðrik hafa sem kunnugt er vaknað spurningar um framtíð minnisvarðans sem steyptur er í brons og mörgum finnst einstakt listaverk.

Í bókinni kemur fram  að nokkrir góðborgarar í Reykjavík höfðu frumkvæði að því að minnisvarðinn var gerður í byrjun sjötta áratugar síðustu aldar og söfnuðu fé til að kosta verkið. Það var afhjúpað á afmælisdegi séra Friðriks 25. apríl 1955 og hafði Reykjavíkurborg þá tekið við umsjón þess. Þegar verkið var vigt höfðu garðyrkjumenn bæjarins lagað grassvörðinn utan um styttuna með túnþökum og sett haganlega upp blómabeð með hvítum blómum Friðriki til heiðurs. Haft var eftir Hafliða Jónssyni garðyrkjustjóra bæjarins í blöðunum að hvítur litur sakleysis væri við hæfi hins 87 ára gamla öldungs og þess vegna hefði hann valið þennan blómalit.

Nefnt er í bók minni að engum manni á Íslandi hafði áður hlotnast slíkur minnisvarði í lifanda lífi. Segir það sitt um einstaka stöðu séra Friðriks í íslensku samfélagi.

Síðasta blaðaviðtalið við séra Friðrik var birt í Morgunblaðinu daginn fyrir níræðisafmæli hans 1958. Þar er vikið að Drumbi með eftirtektarverðum hætti. Eftir stutt spjall stendur hann upp og leiðir blaðamanninn, Matthías Johannessen, síðar ritstjóra, að tréstyttunni.

 „Sko, þarna á ég strák, sagði hann, og benti á myndina. Tove Ólafsson tálgaði hana og gaf mér. Mér þykir ákaflega vænt um hana. Drengurinn heitir Drumbur. Hann er mjög óþekkur og fæst ekki til að fara í nokkra spjör, og er svo auðvitað alltaf hræddur um, að ég muni skella hann á rassinn. Sjáðu, hvar hann heldur hendinni, við öllu búinn!“

Sigurjón Ólafsson hefur þó ekki viljað hafa drenginn naktan, enda allra veðra von við Lækjargötu, og eins og sjá má þegar styttan er skoðuð færði hann drenginn í stuttbuxur.

Þess má geta að í persónulegu myndasafni séra Friðriks eru nokkrar ljósmyndir af allsberum drengjum. Þær eru líklega teknar í sumarbúðum KFUM í Danmörku. Mér er sagt að sams konar myndir séu í ljósmyndasafni Vatnaskógar frá upphafsárum starfseminnar þar. Það er svo annar handleggur hvaða ályktanir má af þessu draga. Kannski áttu drengirnir engin sundföt, sagði vænn maður í KFUM við mig, þegar þetta kom til umræðu við ritun bókarinnar.

Previous
Previous

„Jeg er født homoseksual”

Next
Next

Um tildrög bókar minnar um séra Friðrik